139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki þau sjónarmið hæstv. ráðherra að hann vildi að Landbúnaðarháskólinn hefði átt að vera áfram undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en ég er hræddur um að það hefði ekki bjargað örlögum þess skóla miðað við framgöngu hæstv. ráðherra í því að skera niður rannsóknarstarfsemi eins og Framleiðnisjóð sem stendur þó undir milljónatugum af rannsóknarfé Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Þess vegna segi ég að það er í raun og veru verið að veikja stöðu Landbúnaðarháskólans sem þessu nemur og sérstaklega í ljósi þess að við erum að tala um öflugasta rannsóknarháskólann í landinu miðað við umfang og þess vegna er þetta mjög mikið áhyggjuefni. Ég tek hins vegar undir með hæstv. ráðherra að landbúnaðurinn þarf að eiga sinn eigin verkefnasjóð í rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Aðalatriðið finnst mér þó vera það sem hæstv. ráðherra sagði, hann tekur undir áhyggjur mínar vegna Lífeyrissjóðs bænda og það er svo sannarlega ástæða til að vekja athygli á því. Hæstv. ráðherra hefur staðfest, sem eru að mínu mati stórtíðindi, að það liggi fyrir mat hæstv. ráðherra. Það er þá ljóst að ráðuneytið hefur skoðað þetta. Hæstv. ráðherra sagði: Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar mun skerða lífeyrisgreiðslur til bænda. Það er höggvið þar sem hlífa skyldi. Þarna er ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur heldur lægstur. Það eru bændur sem munu verða fyrir þessari skerðingu, bændur sem taka lífeyri sem verða fyrir þessari skerðingu. Hæstv. ráðherra sagði að ef menn vildu afla þessa fjármagns með öðrum hætti þyrfti að hækka landbúnaðarvörur um 2%. Við vitum að í því umhverfi sem landbúnaðurinn hrærist í núna eru engir möguleikar á því þannig að hæstv. ráðherra boðar hér mjög váleg tíðindi. Hann segir okkur að við blasi skerðing á lífeyrisgreiðslum til bænda. (Forseti hringir.) Það er alvarlegt mál sem ég mun beita mér fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis muni taka (Forseti hringir.) fyrir sérstaklega á komandi dögum.