139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til fjárlaga sem vel að merkja fer nú í hina eiginlegu þinglegu meðferð. Hér þarf væntanlega einhverju að breyta eins og fram mun koma í meðförum fjárlaganefndar um frumvarpið og þingheims alls.

Hæstv. fjármálaráðherra orðaði það svo að þetta væri hið eiginlega hrunfrumvarp. Það vakti athygli mína að frumvarpið var kynnt fyrir okkur þingmönnum stjórnarmeirihlutans í Þjóðmenningarhúsinu. Það er kannski til marks um þá tíma sem eru að breytast að kynningin fór fram í húsi sem er gæluverkefni gamla tímans, þenslutímans, þegar menn höfðu ráð á því að búa til söfn úr nánast hverju einasta húsi. Það vekur hins vegar athygli að á meðan við skerum niður í mjög viðkvæmum málaflokkum er ekki enn þá búið að loka því húsi.

Meginverkefni þessa frumvarps og fjárlaga fyrir árið 2011 hlýtur, frú forseti, að vera að taka á skuldavanda þjóðarinnar. Það má ekki verða svo að við búum við að nær fimmta hver króna fari í vaxtagreiðslur á hverju ári á komandi árum. Við verðum að vinda bráðan bug að því vandamáli því að það er einfaldlega ekki eðlilegur rekstur. Því þarf að grípa til a.m.k. þriggja aðgerða: Við getum skorið niður, við getum að einhverju leyti hækkað skatta og ég vek líka athygli á þriðju leiðinni sem er kannski affarasælust af þeim öllum, þ.e. að gefa í í hagkerfinu með auknum framkvæmdum í atvinnulífinu hringinn í kringum landið. Sú innspýting er að sjálfsögðu affarasælust fyrir samfélagið því að með því móti komum við sem flestum til starfa og getum fækkað þeim prósentum sem kosta okkur 3,1 milljarð króna eins og atvinnuleysið blasir við okkur nú. Á bak við hvert prósent atvinnulausra eru 1.650 manns. Með aukinni innspýtingu í atvinnulífið getum við komist sem best út úr þessum vanda. Það þarf engu að síður — og við skulum vera raunsæ — að grípa til hagræðingar og það þarf að grípa til einhverra aukinna skatta í þessu efni, en sá sem hér stendur talar ekki fyrir auknum skattálögum á fjölskyldur í landinu og vill því síður sjá verulega auknar álögur á fyrirtæki í landinu sem eru jú það fjöregg þjóðarinnar sem nú þarf að komast á fullan snúning. Þess vegna horfir maður fyrst og síðast til niðurskurðar og þess að koma hagkerfinu sem hraðast af stað með öllum tiltækum ráðum. Í þeim efnum hef ég talað fyrir mörgu, svo sem auknum fiskveiðiheimildum, aukinni aðkomu þeirra 1.800 milljarða sem hvíla í lífeyrissjóðunum hér á landi og svo mætti lengi telja.

Ég dvel kannski mest við þann niðurskurð sem blasir við í fjárlagafrumvarpinu, sem vel að merkja er frumvarp og því í þinglegri meðferð. Ég er búinn að vera með reiknivélina síðustu daga og fara í gegnum frumvarpið og þar sker margt í augu en margt er þakkarvert. Ég vil t.d. nefna 20% aukningu á fjárframlögum til umönnunarbóta foreldra langveikra og fatlaðra barna sem var skorið mjög niður í fjárlögum árið 2010 og mætti gagnrýni en er búið að leiðrétta nú. Fjölmörg önnur dæmi í viðkvæmum málaflokkum má nefna sem eru varin og ekki skorin niður nema að litlu leyti og jafnvel engu og sums staðar bætt í. Það er vel.

Hvernig skyldi svo hátta til í þeim ráðuneytum sem hafa að mestu búið til þetta plagg? Með reiknivélinni fór ég í gegnum þau ráðuneyti sem enn starfa á Íslandi og skoðaði aðalskrifstofur ráðuneytanna. Meðalhagræðingin á aðalskrifstofum ráðuneytanna sýnist mér vera 6% niðurskurður. Það er hægt að halda á lofti ýmsum popúlisma og segja að það sé ekki alveg í samræmi við 12% niðurskurð til Félags heyrnarlausra eða 9% niðurskurð til Geðhjálpar. Það má líka nefna að framlög okkar til skákheimsins standa í stað, þar er niðurskurðurinn enginn á meðan við skerum niður í miklu viðkvæmari málaflokkum. Lít ég svo á að annars vegar höfum við tómstundagaman miðaldra karlmanna og hins vegar verulegan vanda fjölskyldna sem eru í neyð með börn sín og unglinga. Meðaltalsniðurskurðurinn á skrifstofum ráðuneytanna sýnist mér vera 6%. Hver er þá krafan úti í feltinu? Hún er allt upp undir 70%, svo sem eins og á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Það er ekki mikið samræmi að mínu viti í niðurskurðartillögum til þeirra sem næst eru og þeirra sem fjærst eru vinnslu fjárlagafrumvarpsins.

Það er einu sinni svo og kannski mannlegt eðli að menn skeri síður niður næst sér en fjærst sér og þess sér stað í frumvarpinu Það er reyndar athyglisvert að sum ráðuneytin gefa í hvað aðalskrifstofuna varðar, eins og um 18% að ég held hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og mætti reyndar nefna tvö önnur ráðuneyti sem standa í stað í útgjöldum hvað aðalskrifstofuna varðar. En mörg hver taka reyndar á sig töluverðan niðurskurð, svo sem forsætisráðuneytið um 12% og fjármálaráðuneytið um 11,5%. Hér er ég vissulega að tala um aðalskrifstofurnar.

Þetta vildi ég nefna vegna þess að ég vil sjá breytingar á frumvarpinu er varða grunnþjónustuna, ég vil hlífa henni. Það er margt sem hægt er að skera niður eins og ég nefndi hér áðan. Þó að það kosti ekki mikið er það samt táknrænt að halda ekki næstu kynningu á fjárlögum í Þjóðmenningarhúsinu. Við skulum frekar loka því en sjúkrastofnunum úti á landi. Það má heldur ekki verða svo að 70% af niðurskurði til sjúkrahúsþjónustu verði úti á landi og 30% t.d. í Norðausturkjördæmi þar sem vegalengdin á milli heilbrigðisstofnana er hve mest og strjálbýlið eðlilega mest.

Við eigum að verja grunnþjónustuna. Við getum það því að aðlögun í ríkisfjármálum er hér minni en víðast hvar annars staðar í kreppu. Ég vil nefna að aðlögun í ríkisfjármálum hér nemur um 13% en hún var 14% í Svíþjóð undir stjórn Görans Perssons, sem hefur komið hér og hvatt okkur til að skera hratt niður, og 15% í Finnlandi. Aðlögun í ríkisfjármálum er minni hér og þess vegna eigum við að geta varið grunnþjónustuna hringinn í kringum landið, rétt fólks til heilsu, rétt fólks til mennta og rétt fólks til öryggis. Þessa þrjá mikilvægu þætti í lífi fólks: Rétt til heilsu, rétt til mennta barnanna okkar og unglinganna og rétt til öryggis, eins og við höfum kynnst við Alþingishúsið á síðustu dögum.

Að svo búnu, frú forseti, vil ég hvetja þingheim til þess að fara mjög vandlega yfir þetta frumvarp og ekki koma aðeins með gagnrýni á það, sem er eðlilegt, heldur líka uppbyggilegar tillögur því að ég held að það sé einmitt krafa þess fólks sem ber í bumbur úti á Austurvelli að þingmenn snúi bökum saman og finni uppbyggjandi leiðir til að bæta frumvarpið. Það er hægt að bæta það. Það er margt gott sem fram kemur í því, það er mörgum veigamiklum atriðum hlíft í velferðarþjónustunni og viðkvæmustu sviðum heilbrigðis- og félagsþjónustu en vissulega má gera betur. Það má breyta einhverju fyrir fólk sem er að berjast fyrir heilsu barna sinna, fólk sem á erfitt með að koma börnum sínum til mennta og fólk sem býr e.t.v. við mikið óöryggi af öðrum ástæðum. Það er margt sem er hægt að fara í og laga. Ég hvet þingheim til að sýna samstöðu í því máli og tala uppbyggjandi um málið vegna þess að tími niðurrifs í pólitíkinni er að baki, tími uppbyggingar er fram undan.