139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og lýsi mig í öllum meginatriðum sammála þeim áherslum sem þar birtust. Ég tók sérstaklega eftir því að hv. þingmaður heldur því mjög til streitu að besta ráðið til að vinna sig í gegnum þetta sé að gefa í á sviði atvinnumála og þeirri skoðun deili ég heils hugar. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að um eitt mál sérstaklega svo ég nefni það, gagnaver á Suðurnesjum, hefur verið mikil og breið samstaða sem ekki hefur einhvern veginn náðst að koma áfram inn í gegnum þingið og ég leita eftir upplýsingum um það hvers vegna svo er.

Ég tek undir það einnig að við eigum að byggja upp umræðuna og vinnuna með sem jákvæðustum hætti. En ég kalla eftir þeim áherslum sem komu upp á þeim fundi sem hv. þingmaður sat í Þjóðmenningarhúsinu vegna þess að ég heyri það í umræðu hér og í stefnuræðu forsætisráðherra í gær að stjórnarþingmenn hafa í rauninni töluverðan fyrirvara (Forseti hringir.) á einstökum atriðum í frumvarpinu.