139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:30]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir hans innlegg í umræðuna. Auðvitað er það svo að hver þingmaður lítur frumvarpið sínum augum og hver hlýtur að koma með sínar hugmyndir inn í þá umræðu sem fram undan er í fjárlaganefnd og umræðu Alþingis um þetta frumvarp og vonandi koma sem flestir með uppbyggilegar tillögur. Við skulum bíða og sjá hvaða breytingum frumvarpið tekur. Ég ætla ekki að ganga fram fyrir skjöldu og segja að ég ætli að hafna þessu frumvarpi verði því ekki breytt í einhverjum atriðum. Ég vil fyrst og fremst að fram fari uppbyggileg umræða um það hvernig við getum mildað ýmsar aðgerðir. Þar hef ég einmitt nefnt þessa þriðju leið sem ég held að sé affarasælust í okkar þjóðarbúskap, að auka með öllum ráðum hag atvinnulífsins og skapa eins mikla fjölbreytni í þeirri grein og hugsast getur (Forseti hringir.) en veðja ekki þar á einn hest eins og gert hefur verið á fyrri árum.