139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Hann kom inn á það í ræðu sinni að menn þyrftu að fara að spýta í lófana og skapa atvinnutækifæri, skapa hagvöxt sem ég er algerlega sammála hv. þingmanni um. Því langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að það kom fram í viðtali við hann fyrir nokkrum vikum að hann gæfi ríkisstjórninni einungis örfáar vikur til að bregðast við þessari kröfu hans: Hvernig hefur hann beitt sér innan síns stjórnarflokks í því að þetta gangi fram og hvernig mun hann hátta því í framtíðinni að leggja til að slíkt verði gert?

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann, hann kom aðeins inn á aðalskrifstofurnar og sá sparnaður sem á að verða þar er mjög óraunhæfur. Við sameiningu í innanríkisráðuneyti er einungis gerð rúmlega 4% krafa á dómsmálaráðuneytið og rúm 3% á samgönguráðuneytið á sama tíma og hæstv. mannréttindaráðherra er með tvo aðstoðarmenn. (Forseti hringir.) Hvar sér hv. þingmaður að hagræðing verði við þessa sameiningu ráðuneyta þegar þetta er með þessum hætti?