139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:40]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi. Ég hélt um stundarsakir að hv. þingmaður ætlaði að fara að tala um tónlistarhúsið en svo var ekki. En ég vil að farið sé rétt með, ég sagði að ég gæfi þessari ríkisstjórn nokkrar vikur til að spýta í lófana í atvinnumálum en ekki fáeinar og getur nú verið einhver munur þar á en það er ekki aðalatriði þessa máls.

Ég er í pólitík til að beita sjálfan mig og eigin flokk aðhaldi. Ég held að það hafi verið vandamál í íslenskri pólitík á undanliðnum árum að flokkarnir sjálfir hafi ekki beitt sig aðhaldi innan frá. Ég vil auðvitað sjá árangur af því að atvinnutækifæri komist á fót sem víðast um land á komandi árum. Við erum öll sammála um það. Okkur greinir kannski á um leiðir en aðalatriðið er það — spurningar hv. þingmanns voru margar og ég kem kannski að svari við einhverri þeirra í seinna andsvari mínu — aðalatriðið er það að við hljótum að vera sammála um að snúa bökum saman þegar kemur (Forseti hringir.) að því að deila góðum hugmyndum um þau atvinnutækifæri sem eru fram undan.