139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir ágæta ræðu, kannski sér í lagi vegna þess að hún hljómaði eins og hún kæmi úr stjórnarandstöðunni. Þar var að finna gagnrýni á frumvarpið og undirtektir við það sem við höfum verið að halda fram í umræðunni.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér er hvort það búi eitthvað á bak við þessi orð vegna þess að ef svo er þá er í rauninni kominn nýr meiri hluti í fjárlaganefnd fyrir því að breyta til að mynda hvað varðar niðurskurðinn í Þingeyjarsýslum. Mér heyrðist þingmaðurinn tala fyrir því að hann vildi ekki fara þá leið sem lögð er til, en mun hann leggja því raunverulega lið og þá ekki bara innan síns þingflokks heldur líka þegar kemur að því að greiða atkvæði í þingsalnum?