139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir ágætisræðu. Mér finnst hún enduróma þann tón sem almennt er í þingmönnum hér í dag, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Menn eru að reyna að koma með uppbyggilegar tillögur til að hafa þau áhrif á fjárlagafrumvarpið að það leiði til farsældar fyrir ríkisbúskapinn og þá um leið þjóðina.

Auðvitað eru tillögurnar og leiðirnar misjafnar sem ræddar hafa verið hér. Það er alveg ljóst að af hálfu okkar sjálfstæðismanna er ekki vilji til að fara þessar skattahækkunarleiðir. Við vöruðum við því sérstaklega á síðasta ári og við gerum það aftur núna. Tillögur okkar varðandi það að taka skattgreiðsluna á séreignarsparnaðinum strax út liggja enn fyrir og þá væri hægt að hlífa ansi mörgum þáttum. Ég heyrði það nú nýverið að hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur tekið undir þessar tillögur okkar sjálfstæðismanna og þær voru settar fram í því skyni að hlífa því sem við erum öll sammála um að þurfi að hlífa, þ.e. velferðarþjónustunni eins og hægt er. Þar þarf auðvitað að skera niður líka, ég ætla ekkert að draga dul á það, en hægt væri að hlífa og forgangsraða betur en gert er í þessu frumvarpi.

Ég vil spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson, því að framsóknarmenn hafa beitt sér mjög einarðlega á þessu sviði sem ýmsum öðrum, um tillögur framsóknarmanna, hvort hann gæti farið aðeins inn á það hvernig framsóknarmenn muni beita sér varðandi tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins en ekki síður gjaldahliðina. Geta þeir t.d. hugsað sér að taka undir tillögur okkar sjálfstæðismanna og hvernig munu þeir þá beita sér í fjárlaganefnd varðandi tekjuhliðina og gjaldahliðina? Það væri gott ef hv. þingmaður gæti stiklað aðeins á stóru um það.