139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það liggur fyrir að við framsóknarmenn höfum tekið undir tillögur sjálfstæðismanna, sérstaklega varðandi það að skattleggja séreignarsparnaðinn. Við höfum reyndar ekki viljað ganga alveg eins langt í þeim efnum. Við lögðum til í fyrra að hann yrði skattlagður að hluta, við erum eðlilega meira til vinstri í þeim efnum. Ég held að til greina komi að skoða þær hugmyndir aftur með jákvæðum huga og ég held að það sé enn tilefni að við sækjum tekjur í þann rann. Ég held að reyndar séu fleiri tekjumöguleikar eins og að setja á svokallað ríkisábyrgðargjald, þ.e. að þeir aðilar sem njóta ríkisábyrgðar greiði fyrir það sérstakt gjald eins og ég veit að hefur viðgengist víða um heim.

Varðandi tillögur í niðurskurði og útgjaldahliðinni er alveg ljóst að skera þarf niður og það verður erfiður niðurskurður. En það er alveg á hreinu að ég vil ekki fara sömu leið og ríkisstjórnin leggur til. Ég vil til að mynda ekki að heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni verði lögð niður í stórum stíl eins og hér hefur komið fram.

Ég ætla að segja eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd, að kannski er ekki hægt að ætlast til þess að við í stjórnarandstöðunni komum með fullmótaðar tillögur um hvernig við ætlum að setja þetta fram. Ég hef því reynt að stikla á stóru í þeirri stefnu sem við höfum en við framsóknarmenn munum leggja fram tillögur okkar þegar kemur að 2. umr. þessa máls.