139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér verið sammála hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni um það að við eigum líka að sjá þær tillögur sem koma frá stjórnarheimilinu. Engu að síður ber öllum skylda til að setja fram tillögur sínar, og best væri ef við gætum náð sátt um leiðir til að tryggja afkomu ríkissjóðs svo að hún verði viðunandi. Við viljum öll, og það hafa allir talað um það, vinna gegn þessum hallarekstri sem hefur verið á ríkissjóði. Ég tel að það komi fyrst og fremst til vegna niðurskurðar. En við verðum líka, og ég held að framsóknarmenn séu sammála okkur um það, og hv. þingmaður leiðréttir mig þá ef svo er ekki, að efla hagvöxt hér í landinu. Við verðum að fá ríkisstjórnarflokkana til að fara af bremsunni hvað varðar ýmsa þætti.

Ég hef þegar talað um það að ýmis atvinnutækifæri hafa beðið sem hefðu stuðlað að því að tekjur ríkissjóðs hefðu verið meiri fyrir árið 2011 ef menn hefðu ekki stigið svona hart á bremsuna. Hvert starf sem við sköpum skapar 3 millj. kr. tekjur fyrir ríkissjóð á ári. Það skiptir sem sagt mjög miklu máli að við förum af stað með slíka atvinnusköpun. Ég vil líka fagna því sérstaklega að aðrir þingmenn sem hér hafa talað, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, hafa talað á þeim nótum að við verðum að forgangsraða í þágu atvinnuveganna og í þágu fjölskyldnanna og heimilanna.

Í ljósi skuldavanda heimilanna spyr ég hv. þingmann hvort hann deili ekki með mér áhyggjum af því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að neyslu- og leyfisgjöld eru, samkvæmt mínum útreikningum, að hækka um allt að 33% frá fjárlagafrumvarpinu 2010 til fjárlagafrumvarpsins 2011. Það þýðir að hluti af þessum hækkunum mun hafa bein áhrif á skuldir heimilanna og þar með talið hækka þau lán sem fjölskyldurnar eru að kikna undan. Er hann ekki sammála okkur um það að við (Forseti hringir.) verðum að beita okkur fyrir því innan þingsins að skuldir heimilanna fari lækkandi?