139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er auðsvarað, ég hef af þessu miklar áhyggjur. Ég verð samt að segja að ég er ánægður að heyra undirtektir úr röðum sjálfstæðismanna, og reyndar úr öðrum flokkum líka, við þær tillögur sem við höfum lagt til bjargar heimilunum í landinu. Ég lýsti því hér áðan að við höfum tekið vel í tillögur sjálfstæðismanna um að skattleggja séreignarlífeyrissparnaðinn og ég fagna því að sjálfstæðismenn eru núna í mun meira mæli en áður að taka undir fjölmargar tillögur sem við höfum lagt til bjargar skuldugum heimilum landsins.

Það er alveg rétt að við framsóknarmenn viljum beita okkur fyrir hagvexti. Ég sagði í ræðu minni áðan að sú stefna að drepa niður atvinnulífið með skattpíningu á síðasta ári hefði verið röng. Ég benti á að sú staðreynd að nú þyrfti að skera niður væri í rauninni afleiðing af þeirri stefnu.

Mér gafst kostur á því að heimsækja Taívan þar sem innlend stjórnvöld og almenningur hafa orðið fyrir barðinu á heimskreppunni. Þar hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana en þær eru allar þveröfugar við það sem núverandi ríkisstjórn hefur gert. Þar hafa stýrivextir verið lækkaðir, þar hafa álögur á atvinnulífið verið lækkaðar, álögur á almenning hafa verið lækkaðar. Í rauninni hefur allt verið gert og reynt til þess að koma atvinnulífinu af stað til þess um leið að vernda velferðarkerfið. Við framsóknarmenn munum beita krafti okkar í það að vernda velferðina í landinu.