139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011 sem á að marka stefnu ríkisstjórnarinnar í fjármálum ríkisins fyrir næsta ár. Það er óhjákvæmilegt í sambandi við það að ræða það sem við heyrum utan frá og heyrðum alveg sérstaklega í gærkvöldi sem er reiði almennings, sem ýmsar ástæður eru fyrir. Ég held að þessi reiði, frú forseti, sé að verða mjög hættuleg, hún er mjög mikil innan húss og hún er úti af mjög mörgum ástæðum og ég held að það þurfi allir að taka á honum stóra sínum að reyna að stöðva þessa reiði af því að hún smitar út frá sér, hún býr til reiði og við getum lent í algeru stjórnleysi ef ekki verður spyrnt við fæti. Aðalhvatinn til þess er náttúrlega að reyna að skilja hvert annað og vita hvað er að gerast. Af hverju er fólkið svona reitt hér úti og hvað getum við gert til að mæta þeirri óánægju og þeirri reiði?

Ég hygg að eitt stikkorð sé gegnumgangandi í þessu öllu, frú forseti, og það er atvinna. Maður sem ekki hefur atvinnu getur ekki borgað af lánunum sínum. Ef hann getur ekki borgað af lánunum sínum þá missir hann húsið sitt. Ef hann missir húsið sitt verða mjög margir reiðir. Það er atvinna sem er númer eitt, tvö og þrjú og fjárlagafrumvarpið hefur einmitt heilmikið með það að gera hvort hér skapist atvinna eða ekki.

Það er gert ráð fyrir miklum niðurskurði í ríkisfjármálum. Mér þætti það ljómandi gott, frú forseti, ef það væri atvinna þannig að þeir opinberu starfsmenn sem þarf að segja upp geti farið út á almenna vinnumarkaðinn og fengið vinnu þar en því er ekki að heilsa vegna þess að það hefur verið gerð — ég vona að það sé óvart hjá ríkisstjórninni — markviss atlaga að atvinnu í landinu. Meginatriðið er hvernig við sköpum atvinnu og fjárlagafrumvarpið þarf að vinna að því. En ég vil benda á eitt, frú forseti, og ég vil benda hæstv. fjármálaráðherra á og ég vil gjarnan að hann hlusti á þetta, að ef þarf að segja upp 10% af 100 manna hópi er miklu betra að segja hverjum manni upp 10% og hann fari þá niður í 90% starfshlutfall heldur en segja 10 alveg upp og hinir haldi vinnunni óbreyttri og óbreyttum launum vegna þess að þá rofna tengslin við vinnumarkaðinn hjá þeim 10 sem er sagt upp alveg og þeir fara á atvinnuleysisbætur sem kosta ríkissjóð helling. Hitt þarf ekki endilega að kosta ríkissjóð þótt menn fari niður í 90% starfshlutfall og þekkingin innan fyrirtækisins eða stofnunarinnar helst. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn taki þessa stefnu.

Það sem gerist þegar starfandi maður verður atvinnulaus er að hann hættir að borga skatta, það er mismunandi eftir tekjum hvað hann borgar mikið í skatt en ég hugsa að 1 eða 2 millj. sé ekkert óalgengt, og hann fer að þiggja bætur. Hann fer frá tekjuhlið fjárlaga yfir á gjaldahlið og ég hygg að þetta séu um 3 millj. á mann. Það er svo mikið atriði að búa til atvinnu í öllum skilningi fyrir utan þann mannlega harmleik sem felst í því að þegar menn verða atvinnulausir og sækja um aftur og aftur og aftur og fá ekki einu sinni svar missa þeir vonina hægt og bítandi og verða reiðir. Ættingjar þeirra verða reiðir, allir vinir og ættingjar í kringum þá verða reiðir. Það er meginatriði að búa til atvinnu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir þeirri forsendu að 3,2% aukning verði á landsframleiðslu eða þjóðarframleiðslu og sumir hafa sagt að það sé mjög varasamt og vafasamt og ég tek undir það vegna þess að í frumvarpinu sjálfu er fjöldi dæma sem segja manni að skatttekjurnar séu að minnka. Það hefur sýnt sig að störfum hefur fækkað um 22.500 í landinu. Hvað hefur orðið um þetta fólk? Sumir hafa farið í nám reyndar og það er ágætt því það er gott fyrir þjóðina til framtíðar en mjög margir hafa flutt til útlanda og það er mjög slæmt því þá hætta þeir að borga skatta á Íslandi og fara að borga skatta annars staðar úti í heimi og aðalauðlind þjóðarinnar sem er mannauðurinn hverfur úr landi. Þetta er mjög hættuleg þróun og ég held að ríkisstjórnin þurfi virkilega að fara að skoða það hvort hún þurfi ekki að leggja meiri áherslu á einmitt atvinnusköpun.

Þeir sem ekki fara, frú forseti, eru bótaþegarnir og ef maður skoðar þessar tölur og sérstaklega upplýsingar á skattframtölum sést að bætur frá lífeyrissjóðum hafa aukist úr 46 milljörðum tekjuárið 2007 í 92 milljarða tekjuárið 2009. Bætur frá lífeyrissjóðunum hafa tvöfaldast á tveimur árum. Þessi kostnaður þjóðfélagsins fer ekki til útlanda því að þetta fólk er ekki fært um og getur ekki flutt til annarra landa. Það sem við stöndum uppi með er hugsanleg fækkun á vinnandi störfum og það kemur beint fram í fjárlagafrumvarpinu, á bls. 87 í Stefnu og horfur sem er frumvarp til fjárlaga, að samkvæmt fjárlögunum var gert var ráð fyrir að einstaklingar mundu borga 124 milljarða í tekjuskatt en þeir borguðu 117. Þeir borga sem sagt töluvert mikið minna en gert var ráð fyrir og þó að ríkisstjórnin geri ráð fyrir að þeir nái aftur upp í 123 milljarða á næsta ári þá er ég ansi hræddur um að nákvæmlega það sama gerist. Það er búið að ofskattleggja þjóðina, það er búið að ofskattleggja fyrirtækin, það er búið að ofskattleggja einstaklingana og skattstofninn minnkar þannig að tekjur ríkissjóðs minnka.

Við sjálfstæðismenn — og það segi ég nú sjaldan — eða ég hef alla vega bent á það í gegnum tíðina að skattlagning er ekki ráð við kreppu. Við eigum að hætta að skattleggja og taka upp það sem bent hefur verið á, skattlagningu á séreignarsparnað í eitt ár til að brúa bilið. Það gefur ríkissjóði sennilega um 70 milljarða og sveitarfélögunum 40. Vegna þess gætum við fellt niður allar skattahækkanirnar sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur tekið upp og jafnvel lækkað tryggingagjaldið eitthvað til viðbótar og ættum samt meiri afgang heldur en hér er gert ráð fyrir. Þetta er að sönnu einskiptisaðgerð en það er svo mikilvægt að búa til atvinnu núna, miklu mikilvægara heldur en hafa tekjur í ríkissjóði og búa til atvinnu eftir 10–15 ár. Við eigum líka að auka aflakvóta eins og bent hefur verið á, af því að það er mikilvægara að hafa atvinnu núna heldur en eftir 10–15 ár með vaxandi fiskstofnum. En ríkisstjórnin hefur tekið þá stefnu að skattleggja helst allt það sem skapar atvinnu. Hvað skapar atvinnu, frú forseti? Í fyrsta lagi er tryggingagjaldið bein skattlagning á atvinnu. Fyrirtækin borga núna 6 eða 7 þús. kr. meira fyrir hvern meðaljón sem þeir hafa í vinnu en þau gerðu áður en þessi hæstv. ríkisstjórn tók við. Síðan hafa menn skattlagt fjármagnstekjurnar, en bæði sparnaður og áhættufé eru forsenda þess að fyrirtækin fjárfesti og fjárfestingar eru forsenda þess að atvinna skapist. Það myndast ekki atvinna öðruvísi. Ekki myndast atvinna hjá ríkissjóði á árinu 2011 því meiningin er að skera verulega niður og minnka. Það þarf að skapa atvinnu annars staðar og menn þurfa að hætta þessum hugmyndum um hækkun á fjármagnstekjuskatti, hækkun á eignarsköttum, meira að segja hækkun á erfðafjárskatti getur leitt til þess að menn vilji ekki leggja fyrir. Menn flytjast þá út og búa þar. Ég heyri töluvert mikið um það að þeir sem borga auðlegðarskatt séu að hugsa um að fara til útlanda og hætta að borga þennan skatt en eiga eignir eftir sem áður á Íslandi og koma hingað reglulega í heimsókn. Þær skattahækkanir sem menn hafa farið út í og ætla að skerpa enn meira á eru því atlaga að atvinnu, allar sem ein.

Ég legg til, frú forseti, að hæstv. fjármálaráðherra hugi að því að breyta um stefnu af því að það er svo mikilvægt í öllum skilningi að auka atvinnu svo við upplifum ekki slíka reiði eins og er nú hér fyrir utan.