139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að hefja ræðu mína á svipuðum nótum og hv. þm. Pétur H. Blöndal endaði sína. Það er auðvitað sláandi að eftir þær miklu skattahækkanir sem voru ákveðnar á síðasta ári skuli enn vera ætlunin að höggva í sama knérunn. Að sönnu eru þær skattahækkanir sem nú eru boðaðar minni en þær sem ákveðnar voru á síðasta ári og voru þær nægar og reyndar var því lýst yfir þegar þær voru ákveðnar að þar með væri sá hluti kominn einhvern veginn í farveg þannig að það var gefið til kynna af ýmsum talsmönnum ríkisstjórnarinnar að ekki væru fyrirhugaðar frekari skattahækkanir. En þær skattahækkanir sem hér eru lagðar til til viðbótar því sem áður hefur verið eru auðvitað varasamar út frá því sjónarmiði sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi að þær eru margar hverjar beinlínis til þess fallnar að sporna gegn þeirri uppbyggingu í atvinnulífinu sem er forsenda þess að við getum farið að vaxa út úr vandanum í staðinn fyrir að reyna einhvern veginn að svelta okkur út úr vandanum, eins og manni finnst viðhorfið vera sem birtist í þessu frumvarpi.

Hættan er auðvitað sú að það samspil skattahækkana og niðurskurðar, sem ríkisstjórnin hefur valið að fara, leiði til þess að við bæði förum dýpra í kreppuna og komumst miklu seinna upp úr henni en ella vegna þess að skattahækkanirnar eru margar hverjar beinlínis fjandsamlegar fjárfestingu í atvinnulífinu sem er, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal rakti ágætlega áðan, forsenda þess að hægt sé að skapa ný störf, skapa verðmæti sem eru til þess fallin að skapa ríkinu auknar tekjur í framtíðinni. Það er eitt að hækka skattprósentu og annað að stækka skattstofn. Hættan er auðvitað sú að með því að sporna við stækkun skattstofna séu menn alltaf að leggja hærri og hærri prósentu á sífellt minni og minni skattstofn með þeim afleiðingum að við náum okkur ekki á strik eins og við ættum þó möguleika á að gera innan einhverra missira ef rétt væri á málum haldið.

Fjármagnstekjuskatturinn er eitt. Hann hefur auðvitað verið hækkaður mjög mikið á undanförnum missirum. Hann var hækkaður í tveimur áföngum úr 10% í 18% og nú er boðað að fjármagnstekjuskattur hækki í 20%. Í umræðunni er stundum látið í veðri vaka að þetta sé allt í lagi vegna þess að það séu bara ríkir fjármagnseigendur sem borgi þetta en þjóðhagslegu áhrifin eru miklu meiri heldur en sem varðar þá sem beinlínis borga skattinn. Það eru auðvitað þjóðhagsleg áhrif af því að fæla fólk frá fjárfestingu, fæla fólk frá sparnaði. Það er ekki til þess fallið að örva atvinnulífið.

Sama má auðvitað segja um hagnað lögaðila. Hækkun á skattinum þar upp í 20% er auðvitað líka tilfinnanleg þótt auðvitað geri það ekki annað en að auka þau áhrif sem þegar eru komin fram að fjárfestingar hér á landi eru ekki eins fýsilegur kostur og áður með hækkuðu skatthlutfalli.

Í sambandi við fjármagnstekjuskattinn má raunar geta þess, af því að í fjárlagafrumvarpinu er vísað til þess að prósentan sé lægri en víða í löndunum í kringum okkur, að það segir ekki alla söguna. Það segir alls ekki alla söguna vegna þess að aðferðin við að reikna út fjármagnstekjuskattinn er mjög mismunandi eftir löndum. Hér er skatturinn ekki bara lagður á raunfjármagnstekjur heldur á nafntekjur sem gerir það að verkum að áhrifin eru meiri en prósentan segir til um. Það helst auðvitað í hendur við verðbólgu á hverjum tíma en að því gefnu að verðbólga sé nokkur þótt hún sé lægri heldur en verið hefur, þá eru áhrifin meiri en prósentan segir nákvæmlega til um og samanburðurinn þess vegna villandi.

Ef við víkjum örlítið að sköttum á vöru og þjónustu, virðisaukaskatti, vörugjöldum, kolefnissköttum og þess háttar skattlagningu þá verðum við auðvitað að hafa í huga hverjir það eru sem greiða. Þegar áætlað er að vörugjöld á bílum muni skila meiru eða vörugjöld á eldsneyti muni skila meiru þá verðum við að athuga hverjir það eru sem greiða. Það eru auðvitað hinir almennu neytendur í landinu, fjölskyldur í landinu, þannig að þó að notuð séu heiti eins og kolefnisgjald og vísað til umhverfismarkmiða og annars þess háttar þá verðum við að horfast í augu við að áform um hækkun á þessum gjöldum er auðvitað hækkun á sköttum á hinn almenna mann í landinu, á hina venjulegu fjölskyldu. Og spurningin er sú hvort við teljum ekki að þar sé nóg að gert. Minnug þess að við hækkuðum gjöld af þessu tagi á síðasta ári, minnug þess að við erum með hæsta virðisaukaskattsþrep í Evrópu, minnug þess að skattlagning á einstaklinga hefur verið aukin til mikilla muna, allt þetta dregur úr kaupmættinum, allt þetta dregur úr veltunni í hagkerfinu, allt þetta er til þess fallið að minnka möguleika okkar á því að vinna okkur út úr kreppunni.

Í þessari stuttu ræðu ætla ég að víkja örstutt að einu atriði sem ég vildi koma inn í umræðuna á þessu stigi við 1. umr. og það er útgjaldahliðin. Þar vil ég fyrst segja að ég tek auðvitað undir það sem fram hefur komið hjá flestum ræðumönnum í dag að allir gera sér grein fyrir því að það þarf að draga úr útgjöldum ríkisins. Við erum einfaldlega í þeirri stöðu sem við vorum í í fyrra og í sjálfu sér í hittiðfyrra líka að þurfa að skera niður frá því sem var þegar við gátum í ákveðnu kæruleysi og óhóflegri bjartsýni reiknað með að skatttekjur skiluðu sér inn í ríkissjóð í sífellt auknum mæli og yfirleitt töluvert umfram það sem áætlanir sögðu til um. Við fórum of geyst þá, við horfumst í augu við það, á það var reyndar oft bent en því miður var því ekki fylgt nægilega eftir. Við þurfum að skera niður en það eru ákveðnir þættir þarna sem ég hef áhyggjur af, sérstaklega á þeim sviðum þar sem ég tel mig þekkja eitthvað örlítið til, að sparnaðarkröfur séu hugsanlega of mikið byggðar á einhverjum almennum reiknikúnstum en miklu síður á forgangsröðun og mati á því hvaða starfsemi við þurfum raunverulega að halda okkur við og hverju við getum sleppt.

Ég næ ekki að fara djúpt í þetta en ég ætla að nefna í lok ræðu minnar eitt atriði sem mér finnst sláandi og ég tel að við þurfum að hafa í huga og það eru fjárveitingar til dómstóla. Ég hef áhyggjur af því að fjárveitingar bæði til héraðsdómstóla og Hæstaréttar verði ófullnægjandi í ljósi þess málafjölda sem er yfirvofandi, bæði á sviði einkamála — að hluta til eru þau mál komin fram, að hluta til eru þau í pípunum og á leiðinni — og eins í fjölda (Forseti hringir.) sakamála enda erum við að leggja til embættis sérstaks saksóknara, sem á að rannsaka hugsanleg brot í tengslum við bankahrunið, jafnháa upphæð eða hærri heldur en til allra héraðsdómstóla í landinu. Einhver mál (Forseti hringir.) munu skila sér frá þessum sérstaka saksóknara til héraðsdómstólanna og það verða hvorki létt mál né einföld, þau munu taka tíma frá dómstólunum og þó að (Forseti hringir.) það sé gott að vitna enn þá til sérstaks saksóknara þá dugar ekki að efla bara þann þátt en ekki þá þætti sem eiga síðan að taka við.