139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór lítillega yfir þetta í framsöguræðu minni en er ljúft að gera það aftur. Staðreyndir mála eru þær að þær takmörkuðu tekjuöflunaraðgerðir upp á 8 milljarða kr. með sértækum aðgerðum, sem meiningin er að ráðast í samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, hafa mjög óveruleg verðlagsáhrif. Það er huggun harmi gegn fyrir þá sem eru á móti skattahækkunum að hér er borið þannig niður að í fæstum tilvikum er um nein verðlagsáhrif að ræða. Þannig hefur hækkun fjármagnstekjuskatts ekki verðlagsáhrif, hækkun á tekjuskatti lögaðila mjög óveruleg og óbein áhrif. Sama gildir um erfðafjárskatt og auðlegðarskatt. Þar er ekki um verðlagsáhrif að ræða. Í tilviki áfengis- og tóbaksgjalds og fleiri breytinga sem þar eru fyrirhugaðar er áætlað að verðlagsáhrifin gætu verið um 0,05%. Sama gildir um hækkun kolefnisgjalds. Í bifreiðagjaldi er nánast um enga viðbótartekjuöflun að ræða þannig að þar eru verðlagsáhrif óveruleg og loks í gjaldi á fjármálastofnanir er um óveruleg óbein áhrif að ræða. Gróft mat á þessu gæti verið að verðlagsáhrifin gætu í mesta lagi orðið um 0,1%. Að öðru leyti er eingöngu um að ræða að svokallaðir krónutöluskammtar og gjöld fylgi verðlagi. Auðvitað hækka þeir sambærilega og í takti við verðlagið en áhrifin eru þá hvorki meiri né minni en það.

Í þessu tilviki og með þessum afgreiðslum verða verðlagsáhrif hverfandi borið saman við þær skattbreytingar sem fram fóru bæði á miðju ári 2009 og aftur með fjárlögum ársins 2010. Eins og þessi mál teiknast upp núna er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þætti ríkisins. Miklu frekar er ástæða til að hafa áhyggjur af gjaldskrárhækkunum hjá sveitarfélögum eða orkufyrirtækjum sem í einhverjum mæli hafa verið boðaðar eða kunna að vera hluti af fjárhagsáætlunargerð sveitarfélaga.