139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

sértæk skuldaaðlögun.

[14:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af þessu vildi ég spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í það sem ég vék að í lok minnar fyrri ræðu, um sjónarmið um jafnræði, samkeppni og gagnsæi vegna þess að þegar maður les þessa skýrslu eða fréttir af henni — ég hef nú ekki komist til að lesa hana spjaldanna á milli — finnst manni skorta nokkuð á að upplýsingar séu uppi á borði og aðgengilegar. Bæði virðist nefndin ekki hafa fengið allar þær upplýsingar sem hún óskaði eftir frá fjármálafyrirtækjunum og eins eru ekki birtar nákvæmar upplýsingar um t.d. afskriftir eða skuldaaðlögun í einstökum tilvikum. Það kunna að vera fyrir því ákveðin rök en ég velti samt fyrir mér hvort hægt sé að gera betur í því að draga úr réttmætri tortryggni sem er í samfélaginu, bæði í atvinnulífinu og eins (Forseti hringir.) hjá almenningi, gagnvart meðhöndlun bankanna á skuldum fyrirtækjanna.