139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

áminningarbréf ESA og lausn Icesave-deilunnar.

[14:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Fyrir allnokkru, nánar tiltekið þann 26. maí 2010, sendi Eftirlitsstofnun EFTA íslenskum stjórnvöldum svokallað áminningarbréf vegna Icesave-málsins. Þessu áminningarbréfi hefur ekki verið svarað af hálfu ríkisstjórnarinnar svo vitað sé. Þingið hefur ekki verið upplýst um það hvort stofnuninni verði svarað, hvenær og þá hvernig.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvernig ríkisstjórnin hyggist bregðast við þessu áminningarbréfi. Það er þó annað mál sem vekur líka athygli og í rauninni sérstaka athygli í tengslum við Icesave-málið. Ríkisstjórnin hefur undirritað viljayfirlýsingu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og eins og menn vita hafa ráðherrar í þessari ríkisstjórn ekki haft mikla trú á því að það gagnist hagsmunum Íslendinga að fara með Icesave-málið fyrir dómstóla. Þegar viljayfirlýsingin er hins vegar lesin og sérstaklega svokallað „Staff Report“ kemur fram á bls. 4 að Icesave-málið sé sannarlega til meðferðar hjá Eftirlitsstofnun EFTA en gert sé ráð fyrir því að ágreiningurinn í Icesave-málinu verði til lykta leiddur fyrir EFTA-dómstólnum.

Þetta eru töluverð tíðindi, a.m.k. í mínum huga, vegna þess að ég kannast ekki við það að Alþingi Íslendinga hafi verið gert kunnugt um þessi áform ríkisstjórnarinnar og þau eru í rauninni í töluverðu ósamræmi við fyrri yfirlýsingar í þessum málum. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hvort hæstv. ríkisstjórn sé búin að taka ákvörðun um að fara með Icesave-málið fyrir dómstóla eins og lesa má út úr (Forseti hringir.) þeim gögnum sem ég vísaði hér til.