139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

áminningarbréf ESA og lausn Icesave-deilunnar.

[14:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Samskiptin við ESA á þessu sviði eru reyndar undir efnahags- og viðskiptaráðherra, það verður hann sem svarar, en fjármálaráðuneytið fylgist eðli málsins samkvæmt vel með þeirri vinnu og leggur sitt af mörkum í hana vegna tengslanna við að sjálfsögðu Icesave-málið. Tíminn hefur verið notaður vel til að undirbúa svör og málsvörn Íslands. Síðsumars var óskað eftir lengri fresti til ESA og hann fékkst. Hann er reyndar liðinn nú en það er í góðu samráði við ESA engu að síður að svör hafa ekki enn verið send. Tíminn er notaður til að fullbúa eftir atvikum svörin og málsvörn Íslands.

Orðalag það sem hv. þingmaður vitnar til úr starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er ekki nákvæmt í þessum efnum og beinlínis í mótsögn ef það er betur skoðað. Það hafa verið samskipti í gangi milli aðila í svonefndri Icesave-deilu eins og hv. þingmönnum er kunnugt og þeim dyrum hefur ekki verið lokað að lausn finnist á því máli með samkomulagi þannig að stjórnvöld hafa enga ákvörðun tekið um að vísa þessu máli til ESA-dómstólsins heldur er beðið eftir að niðurstaða fáist í það hvort samningslausn finnist á málinu. Þetta er bæði ESA og öðrum aðilum kunnugt þannig að sú staða sem uppi er í málinu er í fullu samráði milli aðila að þessu leyti.

Haft var samband við formann utanríkismálanefndar og boðað að svörin yrðu kynnt þar áður en þau yrðu send, að sjálfsögðu, og það mun verða gert komi til þess að þau verði send einhvern tíma á næstunni. Það verður ekki gert án einhvers undangengins fyrirvara þannig að þá verður farið að því vinnulagi sem ákveðið var. Í stóru utanríkispólitísku máli af þessu tagi verða að sjálfsögðu (Forseti hringir.) svör Íslands kynnt utanríkismálanefnd áður en þau verða send.