139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

áminningarbréf ESA og lausn Icesave-deilunnar.

[14:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Ástæðan fyrir því að ég spyr hann þeirra spurninga sem ég varpaði hér fram er einfaldlega sú að hann undirritar sem fjármálaráðherra, ásamt reyndar fleiri hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni, viljayfirlýsinguna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er því eðlilegt að ræða þessi mál við hæstv. ráðherra.

Ég get ekki verið sammála hæstv. ráðherra um að orðalag það sem fram kemur í þessari skýrslu, „Staff Report“, sé óskýrt og í einhverri mótsögn. Því er þar bara lýst hreint og klárt að málið sé til meðferðar hjá Eftirlitsstofnun EFTA en að ráð sé gert fyrir því að deilan verði leidd til lykta fyrir EFTA-dómstólnum. Þetta getur ekki verið skýrara. Þegar maður fær þessi gögn í hendurnar er eðlilegt að maður spyrji hvort ríkisstjórnin hafi skipt um skoðun og vilji fara með málið fyrir dómstóla. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé skynsamleg leið vegna þess að lagaleg staða okkar Íslendinga í Icesave-málinu er sterk en því miður hefur (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn verið annarrar skoðunar.