139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

áminningarbréf ESA og lausn Icesave-deilunnar.

[14:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í sambandi við þær yfirlýsingar eða þá texta sem er að finna í samstarfsyfirlýsingunum (Gripið fram í.) er þar í grunninn eingöngu áréttað það sama og kom inn í þessar yfirlýsingar strax í nóvember 2008. Það er áréttaður sá vilji íslenskra stjórnvalda að vilja leysa þetta mál með samningum náist þeir á ásættanlegum grunni. Það er nákvæmlega sami andi og var í yfirlýsingunni strax frá því í nóvember 2008 og sem má segja að Alþingi hafi með þingsályktun sinni í desemberbyrjun það ár veitt fullt umboð fyrir.

Það sem ég á við um að gögn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum séu misvísandi í þessum efnum er alveg rétt að það mætti ráða af orðalagi í starfsmannaskýrslunni að einhver niðurstaða lægi fyrir um að málið fari fyrir EFTA-dómstólinn en það er enn ekki svo. Annars staðar í sömu gögnum (Forseti hringir.) er þvert á móti lögð áhersla á mikilvægi og vilja aðila til að reyna að leysa málið með samkomulagi. ESA hefur sjálft gefið í skyn að takist það kunni ESA að láta málið niður falla. Það er þetta misræmi sem ég er að vitna til í mismunandi (Forseti hringir.) gögnum eða textum sem liggja fyrir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.