139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skipulagsmál sveitarfélaga.

[14:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra og ræða tengsl skipulagsmála, stöðvun og seinkun framkvæmda sem verða til vegna þess að skipulagsmál dragast um of og hafa gjarnan gert í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Mig langar að ræða sem sagt tengsl þessarar seinkunar og stöðvunar á framkvæmdum við fjárlög sem mun náttúrlega þýða að minni tekjur verða til í samfélaginu og þar af leiðandi minni skatttekjur og það mun þýða aukinn niðurskurð. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort ráðherrann átti sig á þessu samhengi og hvort ráðherrann mundi við þær ígrundanir tengja það við athafnir sínar til að mynda í seinkun á staðfestingu á aðalskipulagi Flóahrepps sem hefur beðið staðfestingar í eitt og hálft ár, hefur farið til héraðsdóms og er nú áfrýjað til Hæstaréttar þrátt fyrir að við séum búin að breyta skipulagslögum og tryggja að búið er að ganga frá því í þingsal sem var ágreiningsefnið satt best að segja, þ.e. hver greiði kostnaðinn af skipulaginu.

Þá langar mig einnig að spyrja hæstv. ráðherra hverju það sæti að aðalskipulag Mýrdalshrepps skuli sitja inni síðan í byrjun maí í ráðuneytinu, þar með aðgerðir er tengjast sjóvarnargarði. Til eru fjármunir sem ríkið hefur sett til verksins, aðilar heima fyrir bíða, sumir í ofvæni eftir að fara í framkvæmdir, aðrir í talsverðum ótta um að veðurfar breytist og að byggðinni geti verið ógnað í Mýrdalnum af sandfoki og sjógangi. Þess vegna langar mig að spyrja hvort (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra geri sér ekki grein fyrir þessu samhengi og hver sé staðan í þessum aðalskipulagsmálum sem ég nefndi.