139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skipulagsmál sveitarfélaga.

[14:28]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda ágæta fyrirspurn. Fyrst um áfrýjun málsins vegna Flóahrepps, það er mitt mat og ráðuneytisins að leiðsögn héraðsdóms hafi ekki verið nægilega skýr að því er varðar kostnaðarþátttöku við skipulag almennt milli sveitarfélaga og framkvæmdaraðila og þá þarf að fá úr því skorið fyrir stjórnvöld og ekki síður fyrir sveitarfélög. Þetta er auðvitað í samræmi við núgildandi lög og eins og þingmaðurinn bendir réttilega á samþykktum við nýverið lög þar sem mælt er fyrir um kostnaðarákvæði í þeim lögum með talsvert öðrum hætti. Þar er gefinn möguleiki á gerð samninga að því er varðar þessa kostnaðarhlutdeild en það er mikilvægt að þessar meginreglur komi fram af hálfu Hæstaréttar og kunna þá að hafa yfirfærslugildi á ný lög.

Varðandi skipulag Mýrdalshrepps sem þingmaðurinn spurði um er rétt að það skipulag kom til umhverfisráðuneytisins samkvæmt mínum upplýsingum í maí eins og þingmaðurinn tekur hér fram. Það var ekki fullbúið til afgreiðslu frá umhverfisráðuneytinu fyrr en töluvert síðar vegna spurninga um vanhæfi sveitarstjórnarmanna sem ég vænti þess að þingmaðurinn þekki. Nú er það verkefni umhverfisráðuneytisins að ákveða með hvaða hætti eigi að afgreiða skipulagið vegna þeirra formlegu annmarka sem eru á afgreiðslu málsins af hálfu sveitarfélagsins og ég vænti þess að þess sé að vænta alveg á næstu dögum. Ég hef sett þetta mál í forgang og sveitarstjórnarmenn í Mýrdalshreppi hafa verið upplýstir um það.