139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skipulagsmál sveitarfélaga.

[14:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin og hvet hæstv. ráðherra til að drífa í því að afgreiða aðalskipulag Mýrdals. Eins og fyrir liggur eru til fjármunir til að fara í þennan sjóvarnargarð og ég held að það væri mjög æskilegt að af því gæti orðið af öllum augljósum ástæðum.

Varðandi umfjöllunina um aðalskipulag Flóahrepps og áfrýjunina til Hæstaréttar þá get ég ekki sagt að ég sé mjög sáttur við það svar sem ráðherra gaf hér. Mér sýnist að ráðherra ætli að láta reyna á dóm meira til að kanna hvort hún hafi haft rétt fyrir sér. Núverandi lög leyfa þetta en mér sýnist í raun og veru að ráðherra ætli að halda áfram að leggja stein í götu framkvæmda. Aðalskipulag Flóahrepps er útrunnið og sækja þarf um undanþágu fyrir hvern hundakofa sem þar er byggður til ráðherra. Það er ráðherra sem stendur fyrir því að málið kemst ekki lengra. Þetta gengur auðvitað ekki.