139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það er með ólíkindum hvað þessar 10 mínútur líða hratt. Við ræðum frumvarp til fjárlaga. Það er nú margt um það að segja, en tíminn er afar stuttur í fyrstu umferð þannig að ég hef hug á því að einbeita mér að málefnum sem snerta heilbrigðisstofnanir og þann niðurskurð sem boðaður er og hefur mikið verið til umfjöllunar hér. Ég sakna þess reyndar að sjá ekki hæstv. heilbrigðisráðherra sem ég var búin að láta vita að ég vildi sérstaklega að hlýddi á, ég treysti því að hann yrði …

(Forseti (RR): Forseti getur upplýst hv. þingmann um að hæstv. heilbrigðisráðherra er í húsi …)

Hann er hér, flott. Kærar þakkir fyrir það, virðulegi forseti.

Ég hef verið svo hugsi eftir að þetta frumvarp kom fram og þær gríðarlegu niðurskurðartillögur hvað varðar heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni. Það er skýrt og klárt að í fjárlagafrumvarpinu birtist pólitísk stefnumótun. Sú pólitíska stefnumótun felst greinilega í að færa vissa tegund af heilbrigðisþjónustu, sjúkrahúsþjónustuna, frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og Akureyrar og reyndar á að færa stóran hluta af henni af einhverjum ástæðum til Akraness. Þetta er skýr og klár pólitísk stefnumörkun. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa svo sem ekkert borið á móti því.

Þegar svona dramatísk stefnumótun er sett fram, svona mikil breyting frá því sem fyrir er, skyldi maður ætla að hún sé vandlega undirbúin, að að baki þeirri stefnumörkun sem birtist í frumvarpi til fjárlaga liggi undirbúningsvinna sem rökstyðji og útskýri hvernig framkvæma eigi þá pólitísku stefnumörkun. Maður mundi t.d. halda að að baki lægju kostnaðargreiningar. Hversu mikið sparast af þessu? Hversu mikið sparast af að færa sjúkrahúsþjónustu frá Vestmannaeyjum, Selfossi, Suðurnesjum, Þingeyjarsýslunum, Vestfjörðum, Höfn í Hornafirði og svo mætti lengi telja, til Akureyrar, Reykjavíkur og Akraness? Hversu mikið af fjármunum færist á milli frá þessum stofnunum og til hinna stofnananna? Ég held að allir geri sér grein fyrir því að þrátt fyrir breytingu á pólitískri stefnu hættir fólk því miður ekki að verða lasið og ekki ætla ég hæstv. heilbrigðisráðherra eða fjármálaráðherra það að hafa fundið lækningu við ýmsum kvillum og séu því að draga fjárveitingar til lækninga þeirra til baka. Ég hefði líka haldið að þarna lægi að baki greining á þeim áhrifum sem boðaður niðurskurður hefði á þau samfélög sem um ræðir vegna þess að svona stórfelldar breytingar hafa í för með sér miklar félagslegar breytingar á þessum stöðum. Það er uggur í mörgum samfélögum.

Mér var hálfbrugðið. Í fyrsta lagi þegar maður hefur talað við forsvarsmenn þessara stofnana, marga hverja, hlustað á þá í fjölmiðlum og les svo Morgunblaðið í morgun þar sem kemur skýrt fram að það hafi ekki verið neitt samráð. Í ljóst hefur komið að ekki hefur verið haft neitt samráð við þær stofnanir sem skera á niður og ekki heldur við þær sem eiga að taka við. Ég leyfi mér að vitna í Morgunblaðið í morgun. Þar segir Halldór Jónsson, forstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, með leyfi forseta:

„… ekki hafi verið rætt um hvernig bregðast eigi við auknum verkefnum og að ekki hafi verið haft samráð við sjúkrahúsið varðandi gerð frumvarpsins.“ — Hann segir enn fremur: — „Tíminn sem gefinn er til að bregðast við þessum breytingum er allt of skammur …“

Ég ætla að bæta við frá Halldóri Jónssyni:

„Ég sé ekki fyrir mér hvernig þetta á að geta orðið að veruleika á næsta ári.“

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, með leyfi forseta:

„… segist telja líklegt að verkefni spítalans aukist.“

Það hlýtur að vera, ekki verður fólkið bara úti að aka einhvers staðar lasið. Það hlýtur að þurfa að leita sér lækninga einhvers staðar annars staðar. Hann segir, með leyfi forseta:

„En það hefur ekki verið rætt sérstaklega við okkur.“

Björn segir enn fremur — nú erum við öll þess minnug að Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, er búinn að fara í gríðarlega hagræðingu á Landspítalanum og ég held að enginn velkist í vafra um að hann og hans starfsfólk eru búin að ná ákaflega miklum árangri og velta hverjum einasta steini og hverri krónu — að það komi svo sem ekki á óvart hvað varðar niðurskurð á Landspítalanum en það gegni öðru máli um niðurskurð á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, kvartar undan samráðsleysi. Mér finnst það sem hún segir mjög alvarlegt og vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra að því hvort það sé satt, hvort þetta geti verið rétt. Hún segir, með leyfi forseta:

„Birna segist ekki vita til þess að kostnaðargreining liggi að baki frumvarpinu og telur að pólitísk sjónarmið hafi haft mikið að segja um hvernig skorið er niður í einstökum landshlutum. „Ríkisstjórnin sest niður með reglustiku eins og stríðsherrar og strikar út.“

Birna segir að við gerð frumvarpsins hefði átt að skoða hvort einkareknar læknastofur gætu framkvæmt læknisverk á ódýrari hátt en hið opinbera. Henni þykir miður að ekki hafi verið skoðaðir fleiri möguleikar. „Hvers vegna má hækka orkureikninga upp úr öllu valdi en svo má ekki einu sinni ræða það að breyta greiðsluhlutdeild sjúklinga þannig að hægt sé að halda þjónustustiginu?““

Ég vil gera þessa spurningu að minni til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hefur verið leitað leiða til að ná auknum fjármunum inn í heilbrigðiskerfið, t.d. með þessum hætti? Ég tek enn fremur undir það sem Birna segir í greininni, að ekki er verið að tala um að auka álögur á þá sem mest þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda heldur á fólk eins og t.d. sjálfa mig sem blessunarlega þarf sjaldan að leita til læknis og er aflögufær þegar ég þarf að gera það einu sinni, tvisvar á ári að borga fyrir. Er verið að skoða einhverjar svoleiðis leiðir til að tryggja grunnþjónustuna út um landið með einhverjum öðrum leiðum en gert er?

Síðan segir Birna í lokin að Læknafélagið hafi ítrekað leitað skýringa hjá ráðherra heilbrigðismála en ekki fengið.

Annað sem ég mundi líka vilja spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um: Við vitum að á undanförnum árum hafa sjúkrahús víða um land, t.d. á Suðurnesjum þar sem ég þekki vel til, leitað eftir öðrum leiðum til að draga starfsemi að. Þá nefni ég sérstaklega skurðstofurnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, fullbúnar skurðstofur, þar sem leitað var eftir því að fá einkaaðila þar inn, ekki til að skapa tvöfalt heilbrigðiskerfi heldur til að forða því að það gerðist sem er einmitt núna að gerast — það er engin starfsemi þarna. Nú á að skera enn þá meira niður þannig að þar verður engin þjónusta. Hugsunin var alltaf sú að fá inn skurðstofuteymi sem nýtti hluta þess tíma sem væri hvort sem er vannýttur. Með því væri verið að draga starfsemi að og tryggja starfsfólk, viðveru og tekjur þannig að hægt væri að skaffa grunnþjónustuna. Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra hug á að endurskoða þá ákvörðun sem forveri hans, Ögmundur Jónasson, tók og leyfa sjúkrahúsinu að leita leiða til að afla sér tekna?

Ég sagði áðan að uggur væri í mörgum samfélögum. Það er ekki ofsagt. Ég hef heyrt það frá mörgum stöðum. Það eru hljóðlát mótmæli í Reykjanesbæ á morgun, annað kvöld, til að mótmæla niðurskurði þar. Ég veit af borgarafundi á Húsavík á morgun. Ég veit af borgarafundi á Ísafirði sem er boðaður einhvern tímann seinna í vikunni. Borgarafundur er á Selfossi á laugardaginn. Ég er handviss um að Vestmannaeyingar, Hornfirðingar og fleiri munu gera slíkt hið sama vegna þess, eins og haft er eftir bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum í dag í Morgunblaðinu, að verið er að leggja heilbrigðisþjónustuna í Eyjum niður. Það er ekki hægt að gera þetta, sérstaklega ekki þegar í ljós kemur að það er gert án þess að búið sé að reikna neitt út. Það er ekki búið að undirbúa (Forseti hringir.) samfélögin. Ekki hefur verið haft samráð við fólkið sem verður fyrir þessu, á hvorum endanum sem er. (Forseti hringir.) Við það geri ég alvarlegar athugasemdir, frú forseti.