139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa a.m.k. einhver fyrirheit um að þetta verði endurskoðað. En ég verð að mótmæla því sem hann segir hér, í nokkrum atriðum. Hann segir að ákvörðun hafi verið tekin um að verja stóru spítalana. Ég fór yfir það í ræðu minni og það kemur fram í greininni í Morgunblaðinu sem ég vitnaði til áðan, að bæði forstjóri Landspítalans og forstjóri FSA á Akureyri telja sig ekki í stakk búna til að taka við meiru að óbreyttu. Þar sé búið að skera inn að beini og ekki hægt að taka við meiru án þess að einhverjar breytingar komi til. Alvarlegast er að ekki hefur verið haft samráð við þessar stofnanir um hvernig bregðast eigi við. Ekki hefur verið haft samráð við þær stofnanir þar sem skera á niður og þar er fólk sem hefur starfað þar árum saman. Ég talaði við forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sem ég hef gert oft og ítrekað, og ég hef fylgst með því hvernig sú stofnun hefur reynt að sníða sér alltaf æ minni stakk eftir vexti en þrátt fyrir það kemur fyrirskipun núna um 24% ofan á allt hitt, án þess að búið sé að ræða það við einn eða neinn. Og hæstv. ráðherra sagði að það ætti að verja Vestmannaeyjar — af hverju skilur þá bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum þetta svona, með leyfi forseta?

„Verði þetta niðurstaðan er einfaldlega verið að leggja niður heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum í þeirri mynd sem við höfum þekkt“ hingað til. Og það er málið, þó svo að verið sé að tala um að taka heilsugæsluna fram fyrir. Ég verð líka að mótmæla því sem sagt var um að færa skurðþjónustu til betur búinna spítala. Skurðstofurnar í Reykjanesbæ eru með þeim best búnu á landinu. Því vil ég ítreka spurningu mína til ráðherrans sem ég setti fram í ræðu minni: (Forseti hringir.) Á að gera þeim kleift að nýta þá góðu aðstöðu sem þar er? Og vill (Forseti hringir.) ráðherrann útskýra fyrir mér hvernig þetta eigi að ganga?