139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, hann lýsti því yfir að hann væri tilbúinn til að skoða að skurðstofurnar í Reykjanesbæ mætti hugsanlega leigja til einkaaðila svo þær gætu aflað sjúkrahúsinu tekna. Verið er að byggja annað sjúkrahús vegna þess að tekið var fyrir það í tíð forvera hæstv. ráðherra að skurðstofurnar í Keflavík væru notaðar. Ég vona að því verði forðað að þetta verkefni verði sett í enn meira uppnám, ég vona að ekki sé verið að boða að rugga þeim bát. Ég segi þetta vegna þess að hægt væri að koma inn fleiri verkefnum. Við skulum taka hitt út fyrir sviga og rugga ekki fleiri bátum varðandi atvinnuverkefni á Suðurnesjum, nóg er nú samt.

Já, það á að leggja niður heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum í þeirri mynd sem hún er, það er alveg rétt. Sú mynd er m.a. að fæðingar munu leggjast af vegna þess að skurðstofunni verður lokað. Það sama verður upp á teningnum á Selfossi, í Reykjanesbæ og á fleiri stöðum. Þá spyr ég, með tilliti til þess sem hæstv. ráðherra sagði — nú er ég reyndar frekar ósanngjörn vegna þess að hæstv. ráðherra á ekki annað andsvar en hann getur hvenær sem er komið inn í ræðu og það væri gott að fá þetta fram: Hvernig á fæðingardeildin á Landspítalanum að geta tekið við öllum þessum fæðandi konum þegar skýrt hefur komið fram að ekki er meira fé til umráða? Og það er ekki hægt að bæta við að óbreyttu segja forstjórar bæði á Akureyri og í Reykjavík. Það er alveg rétt að þeir vissu þetta og það kom fram í máli mínu að forstjóri Landspítalans vissi hvað að honum mundi snúa en hann sagði það sérstaklega (Forseti hringir.) að hann vissi ekki hvernig niðurskurðurinn á landsbyggðinni yrði. Og það kom honum verulega á óvart.