139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:15]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það vekur athygli mína við þá umræðu sem hér hefur verið í gær og í dag um fjárlögin hversu lítið við vitum um það hvaða áhrif þetta kann að hafa á þá þjónustu sem veitt er á vegum ríkisins vítt um land. Þar vil ég helst ræða tvo meginþætti. Annars vegar vil ég fylgja eftir umræðu um heilbrigðisþjónustuna og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru ef fjárlögin verða samþykkt. Hins vegar vil ég ræða opinber fjármál, þ.e. samspil ríkisfjármála og fjármála sveitarfélaga.

Varðandi þá umræðu sem orðið hefur um heilbrigðismálin er óhjákvæmilegt að tengja þær tillögur sem hér liggja fyrir því ráðslagi sem verið hefur á ríkisstjórn Íslands varðandi skipan Stjórnarráðsins. Í mínum huga eru miklar spurningar uppi um það hversu heppilegur hringlandahátturinn hefur verið í ráðherraskiptum hjá ríkisstjórninni. Þetta er ekki sagt með neinum hnjóðsyrðum í garð núverandi hæstv. ráðherra, alls ekki, þó svo að hann hafi látið þau orð falla fyrst eftir að viðbrögðin við frumvarpinu komu fram að hann hefði ekki haft tækifæri til að kynna sér þær tölur sem í því væru.

Það er hins vegar umhugsunarefni hvers vegna ekki er hægt að leggja fram frumvarp í þessum efnum, þetta svokallaða hrunfrumvarp, án þess að strax við framlagninguna sé komið hik á mannskapinn. Hér er á ferðinni alvörumál. Við ræðum gríðarlegan niðurskurð í grunnþjónustu um allt land. Enginn ætti að stunda það verklag að leggja fram slíkar tillögur nema að vel athuguðu máli og að höfðu miklu samráði við alla hlutaðeigandi. Þetta er ekki til sóma.

Eins og komið hefur fram í umræðum stendur til að halda borgarafundi vítt um land. Ég veit til þess að á Húsavík verður haldinn fundur á morgun. Það er greinilega mjög sár kvika þar í bæ því að ég fékk upplýsingar um það áðan að þeir yrðu að skipta um húsnæði og fara í stærsta húsnæðið á staðnum. Fundurinn verður haldinn í íþróttahúsinu á Húsavík á morgun klukkan fjögur. Ég skora á hæstv. ráðherra heilbrigðismála og hæstv. fjármálaráðherra að mæta til þessara funda sem þeim er boðið á, þó ekki væri til annars en að hlýða á þær raddir sem þar eru uppi. Mér finnst það eðlilegt. Mér finnst það sjálfsagt í ljósi þeirra alvörumála sem um er að ræða.

Ég gerði stöðuna á Húsavík að umtalsefni í gær. Það er önnur stofnun í því kjördæmi sem ég var kjörinn á þing fyrir, sem er Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem fer ekki síður illa út úr því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Þar á bæ gerðu menn ráð fyrir því, eins og raunar innan fleiri ríkisstofnana á þessu sviði, að vinna að hagræðingu upp á 5–6%, höfðu áður unnið á síðasta ári að niðurskurði upp á 11% og þar á undan upp á 4–5%. Þá fá þeir þetta í hausinn. Til marks um það hversu illa grundað þetta dæmi allt er vil ég nefna tvö atriði.

Í fyrsta lagi er heilsugæslusviði á Heilbrigðisstofnun Austurlands gert að spara 43 milljónir. Hverjar eru forsendurnar fyrir því? Jú, að það sé ein heilsugæslustöð á svæðinu. Það eru óvart reknar þrjár heilsugæslustöðvar þar. Ef þessi hagræðing ætti að nást verður að byggja við þessa einu sem ætti að taka við þessu öllu saman og selja þá hinar ef menn vilja fá eitthvað fyrir féð. Í annan stað er sjúkrasviðið skorið niður um tæpar 430 milljónir þrátt fyrir að búið sé, og það liggi fyrir í útreikningum, að sýna fram á þjóðhagslega hagkvæmni þess að reka sjúkrahúsið með álíka hætti og gert er fyrir austan.

Hin athugasemdin sem ég geri efnislega við þetta mál er sú að þrátt fyrir allan þennan niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Austurlands, allt upp í 52% niðurskurð, er samt sem áður gert ráð fyrir því að þessi sama stofnun nái að innheimta sömu sértekjur og áður var. Það er gjörsamlega fráleitt að þetta náist og þá er grunnurinn undir öllu því sem lagt er fram í þessu fjárlagafrumvarpi farinn. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið um það að á þeirri stofnun sem hér um ræðir ræða menn það einnig hversu sláandi samráðsleysið við stofnanirnar er og hefur verið.

Hitt atriðið sem ég vil gera að umtalsefni eru hin opinberu fjármál, samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Ég átti orðastað við hæstv. dómsmála-, mannréttinda-, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skammstafað dmss., hér áðan fyrir þingfund. Okkur samdist um að taka upp utandagskrárumræðu um þetta mál svo fljótt sem auðið er þannig að ég virði fjarveru hans á þessum fundi.

Þegar maður lítur yfir rekstraryfirlit frumvarpsins sér maður að það eru fyrst og fremst fjórir málaflokkar sem taka á sig höfuðþungann í þessum tillögum; það eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, félags- og tryggingamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og síðan samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Þetta eru þeir þættir sem hafa mjög mikið að segja um afkomu sveitarfélaga og þau viðfangsefni og verkefni sem þeim er ætlað að sinna að lögum.

Þegar maður horfir á tilfærsluhlutann í fjárlagafrumvarpinu, hina hagrænu skiptingu gjaldanna, er burðurinn í niðurskurðinum í rekstrar- og neyslutilfærslunum í Atvinnuleysistryggingasjóði, í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og í bótum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Það er óhjákvæmilegt að staldra örlítið við þessi dæmi í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað á síðustu mánuðum um fjárhagslega afkomu sveitarfélaga. Það eru allir sammála um það að fjárhagsleg staða þeirra margra er gríðarlega veik og með þeim tillögum sem hér liggja fyrir, meðal annars um jöfnunarsjóðinn, mun þeim ekki verða gert auðveldara um vik að vinna sig út úr þeim vanda sem við er að glíma. Ég man í svipinn ekki hversu mörg sveitarfélög eru komin undir eftirlit eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en þau eru ærið mörg. Ég geri ráð fyrir að viðfangsefni þeirrar nefndar muni verða risavaxið að vöxtum þegar áhrifin af óbreyttu fjárlagafrumvarpi munu koma fram á næsta ári.

Ég hef upplýsingar um að að óbreyttu megi ætla að framlög sveitarfélaganna til að standa undir afskriftum, fjármagnskostnaði og framkvæmdum verði um 6% af tekjum en lækki í 2% á næsta ári, og þá sjá allir hvert stefnir. Það liggur hér fyrir að niðurskurðurinn í jöfnunarsjóðinn, 1,5 milljarðar, bitnar að sjálfsögðu á þeim sveitarfélögum sem erfiðast áttu um vik fjárhagslega. Aukaframlagið, sem hér er gerð tillaga um að skera niður, mun bitna á þeim sveitarfélögum sérstaklega.

Ég hef því miklar efasemdir um það hvernig þetta er unnið og spyr hvort fyrir liggi einhver greining á því hvernig viðbrögðin við þessu eiga að vera. Ég hef miklar efasemdir um að rétt sé staðið að verki með undirbúning að svona grundvallarbreytingum á þjónustuþáttum sem snúa að grunnþörfum íbúa sveitarfélaga.