139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu segja örfá orð og fyrst og fremst þakka fyrir umræðuna sem hefur verið málefnaleg og hófstillt þó vissulega mætti segja að boðskapur frumvarpsins gæfi mönnum tilefni til að láta dálítið gamminn geysa. Ég leyfi mér að líta svo á að það sé einfaldlega vegna þess að meðal allra þingmanna sé mikill skilningur á því við hvað er að glíma og mikilvægi þess að tekist sé á við þessi verkefni, erfið sem þau eru — að ná böndum á hallarekstri ríkisins og gera ríkisfjármálin aftur sjálfbær.

Ég hef brugðist við í andsvörum eftir því sem ég hef séð ástæðu til að svara beint jafnóðum og vísa til þess. Að öðru leyti vil ég tæpa á fáeinum atriðum sem hafa meira en önnur svifið yfir vötnum umræðunnar. Í fyrsta lagi það sem margir hafa gert að umtalsefni; hinn þjóðhagslegi grunnur sem frumvarpið byggir á, horfurnar í þeim efnum og hvort það sé byggt á of bjartsýnum spám, t.d. frá vorinu. Ég hef áður útskýrt hvers vegna fjárlagafrumvarpið verður að byggja á einni tiltekinni þjóðhagsspá. Ekki er hægt að tína út úr henni einstakar breytur, jafnvel þó vísbendingar hafi síðar komið fram um að eitt og annað sé að stefna í aðrar áttir. Ekki er hægt að notast við spár úr einni átt um minna atvinnuleysi, spár úr annarri átt um meiri styrkingu gengisins og spár úr þriðju áttinni um meiri samdrátt landsframleiðslu eða eitthvað í þeim dúr. Byggja verður á einni heildstæðri spá. Niðurstaðan varð sú, eins og verklagið er í þeim efnum núna, að það yrði að vera þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní, að því einu frátöldu að ákveðnar upplýsingar úr ríkisbókhaldinu sjálfu eru auðvitað hafðar til hliðsjónar og hafa viss áhrif á mat á einstökum tekjustofnum o.s.frv.

Ég hlýt að endurtaka það sem ég hef áður sagt að í það heila tekið er ekki tilefni til að gera ráð fyrir miklum frávikum, jafnvel þótt horft sé til þess hvað aðrir aðilar hafa spáð upp á síðkastið. Seðlabankinn spáir nokkru lægri hagvexti á næsta ári, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn svipuðum. Vísbendingar sem við höfum til að styðjast við ganga í báðar áttir.

Í öðru lagi hafa menn nokkuð rætt um mikilvægi þess að koma hagkerfinu í gang og á snúning og að hér verði fjárfesting og uppbygging. Sýnist nú kannski sitt hverjum um hvað reynt hefur verið að gera í þeim efnum. Ég bendi mönnum fyrst og fremst á 6. kafla fyrra heftisins þar sem farið er nokkuð yfir þau mál og m.a raktar ýmsar aðgerðir sem gripið hefur verið til á síðustu tveimur árum sem lúta að því að reyna að styðja við atvinnulífið í gegnum erfiðleikana. Sumar þeirra hafa verið tímabundnar ívilnanir til að auðvelda mönnum að gera upp, dreifa gjalddögum og annað í þeim dúr, aðrar varanlegri.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur ríkið lagt þó nokkuð af mörkum þegar saman er talið. Þar má nefna auknar fjárveitingar til viðhalds opinberra mannvirkja sem bætt var sérstaklega í 500 milljónum á þessu ári sem leiddi til þess að unnið verður í ár fyrir um 3,2 milljarða í slíkum viðhalds- og endurbótaverkefnum. Það er með því mesta sem gert hefur verið þrátt fyrir þetta erfiða árferði.

Ríkið lagði fram helminginn af 700 millj. kr. markaðsátaki í ferðaþjónustunni til að bregðast við þeim blikum sem þar drógust upp á himinn í kjölfar náttúruhamfaranna í vor. Umtalsverðir fjármunir hafa verið lagðir í að skapa sumarstörf fyrir námsmenn. Búið er að setja ívilnanir fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði og sumarhúsum og reyndar að hluta til á fasteignum sveitarfélaga var hækkuð úr 60% í 100%. Nú var bætt við með lögum sérstökum skattaívilnunum fyrir einstaklinga sem ráðast í slíkar fjárfestingar (Forseti hringir.) og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Ég vísa mönnum, frú forseti, og er alveg að ljúka máli mínu, á 6. kafla.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið við umræðuna og brugðist við spurningum sem bornar hafa verið upp og vissulega hafa heilbrigðismálin verið mikið rædd. Mér sýnist vera víðtæk samstaða meðal þingmanna um að þann þátt þurfi að skoða mjög vandlega í vinnu fjárlaganefndar. Ég er að sjálfsögðu sammála því.

Að öðru leyti vil ég fyrst og fremst þakka fyrir málefnalega umræðu og þann vilja sem talsmenn flokka, forustumenn í fjárlaganefnd og aðrir hafa sýnt og lýst sig reiðubúna til að vinna að þessum vandasömu verkefnum saman inni í fjárlaganefnd.