139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

5. mál
[17:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er fyrsti flutningsmaður að. Hún fjallar um, eins og fram hefur komið, að skipa sérstaka rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til þess að rannsaka hið svokallaða Icesave-mál frá upphafi til enda. Mér fannst ekki hægt annað en að koma upp og lýsa yfir stuðningi við málið þar sem ég kom ansi oft í pontu í umræðunni um Icesave-málið sl. ár. Ég taldi að það yrði nauðsynlegt fyrr en síðar að rannsaka ferilinn frá upphafi til enda. Ég gæti þess vegna verið meðflutningsmaður að tillögunni.

Hér liggur fyrir tillaga og ítarleg greinargerð upp á 31 síðu þar sem fjallað er um málið. Ég tel æskilegt að menn kynni sér það. Eins og fram hefur komið héldum við vel á spöðunum á síðasta ári og komum í veg fyrir að samningur og viðaukasamningar sem gerðir voru, væntanlega með tilstyrk minni hluta þingmanna, af ríkisstjórninni og þvældist í gegnum þingið í langan tíma. Að lokum voru þeir blessunarlega felldir af þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við sem stóðum vaktina og töluðum gegn samningnum getum verið stolt að hafa tekið þátt í því að koma í veg fyrir að óskapnaðurinn sem samningur var hefði orðið að veruleika. Þess vegna tel ég nauðsyn á því að rannsaka tilurð samningsins og allt það ferli.

Ég vil nefna að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem margt kemur fram, og í þingmannanefndarskýrslunni sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og lærdóminn sem draga mátti af henni, er rætt um nauðsyn þess að breyta m.a. þingsköpum. Uppi hafa verið hugmyndir frá forsætisnefnd eða hæstv. forseta Alþingis að setja á laggirnar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Ég mundi eindregið styðja það. Það er til samræmis við sambærilegar nefndir á Norðurlöndunum, til að mynda í Noregi og víðar. Slík nefnd getur tekið svona mál til skoðunar að eigin frumkvæði eða tekið við tillögum frá þingmönnum eða þingmannahópum. Síðan yrði farið yfir það og menn tækju inn alla þætti sem þeir teldu að skoða þyrfti. Í kjölfarið á því þyrfti jafnframt að setja lög um opinberar rannsóknarnefndir sem einnig er meiningin að verði gert. Frumvarpsdrögum var dreift hér í sumar af hæstv. forseta þingsins þess efnis. Ég held að það sé æskilegt. Það mundi líka koma í veg fyrir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal minntist á í ræðu sinni um reynslu hans af málum sem meiri hlutanum þættu óþægileg, þau sofnuðu í nefnd. Ég held að ef við værum með kerfi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins gætu menn farið yfir mál með minna pólitískum hætti. Sett fleiri þætti í rannsóknirnar og komið þeim af stað ef meiri hluti í nefndinni næði saman. Þannig færu þau af stað en við værum ekki á flokkspólitískum línum sem hv. þm. Pétur Blöndal óttast að málið lendi í. Ég vona svo sannarlega að það verði ekki.

Hér er fjallað um og við ræddum það í þingmannanefndinni þegar málin voru dregin til baka og flutt sér, ekki sem breytingartillögur við skýrslu þingmannanefndarinnar heldur sér, að þeim yrði hleypt greiðlega til umræðu. Til umræðu komu kostir og gallar þess að setja rannsóknina af stað áður en samningurinn um Icesave eða það mál yrði til lykta leitt. Mín skoðun er sú að það sé eðlilegt að setja þetta af stað. Ég held að það geti hjálpað til við samningsgerðina. Þá átti menn sig á því innan hvaða ramma þeir starfa og að yfir axlir þeirra sé horft. Þá geri sér allir ljóst að samningsvinnan verður að þola dagsljósið þegar samningurinn verður gerður, enda verða þingmenn að setja sig inn í hann.

Ég tek undir orð hv. þm. Péturs Blöndals að hver dagur sem líður án þess að við göngum frá samningnum hlýtur að hafa verið okkur til góða miðað við upphaflegu hugmyndirnar um vexti frá 1. janúar 2009, ef ég man rétt.

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. janúar 2012. Nú veit ég ekkert hvort búið verði að ganga frá samningnum þá. Það ætti að halda því opnu að rannsóknin standi yfir þar til samningurinn sé tilbúinn, hvenær sem það nú verður. Við vitum að það er talsvert eftir af málaferlum varðandi kröfur í gamla Landsbankann og þar af leiðandi óljóst hvenær málinu lýkur. Ég vildi koma upp og lýsa yfir að við sem stóðum vaktina í fyrra og komum í veg fyrir að ólánssamningurinn færi í gegn, hljótum að styðja þessa rannsókn.