139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

stjórnarskipunarlög.

7. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, þetta mál hefur verið rætt mörgum sinnum og ég hef flutt ræðu mína nokkrum sinnum. Það er að sjálfsögðu heimspeki frekar en lögfræði hvernig menn byggja upp valdakerfi þjóðar. Það voru franskir heimspekingar sem komu með þá hugsun að skipta valdinu í þrennt til að vernda borgarana fyrir of sterku valdi. Það höfum við haft að leiðarljósi síðan. Það sem við erum að gera hér er að stíga þetta skref enn lengra.

Það er reyndar eitt atriði enn sem er í stjórnarskránni sem brýtur þessa reglu, það er forseti lýðveldisins sem er bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald því að hann þarf að skrifa undir lög og hann hefur heilmikið með ríkisstjórnina að gera þannig að formlega séð skipar hann ríkisstjórnina. Ég hef lagt til að það embætti verði lagt af en við ætlum ekki að ræða það í dag.

Það sem mér finnst vanta inn í frumvarpið, sem ég styð að sjálfsögðu sem flutningsmaður, er að það ætti að fækka þingmönnum niður í 51 í leiðinni. Þá mundi ekkert breytast á þingi, 51 þingmaður yrði starfandi í nefndum eins og nú er þegar ráðherrar eru 12. Það eina sem mundi breytast er að ráðherrarnir þyrftu ekki að mæta í atkvæðagreiðslur. Þeir þyrftu bara að mæta til að svara spurningum þingmanna og ég vona að sú breyting verði með tímanum að þeir þurfi heldur ekki að mæta til að mæla fyrir frumvörpum, að það fyrirbæri hverfi líka.

Staðan í dag er mjög undarleg. Það þarf 32 þingmenn til að samþykkja mál á Alþingi. Ráðherrarnir hafa stundum verið 12, þ.e. þeir eru 37% af þeim sem þurfa að samþykkja frumvörp. Þeir fjalla oft um sín eigin frumvörp þannig að vald þeirra verður mjög sterkt í þingflokkunum, eins og nefnt hefur verið, og líka á Alþingi þar sem þeir ráða nærri 40% af atkvæðum þeirra sem þurfa að samþykkja frumvarp. Vald þeirra er því mjög sterkt.

Af því að við erum að stofna til stjórnlagaþings vil ég koma því að að það vantar illilega ákvæði um dómsvaldið í stjórnarskrána. Til er ákvæði um dómsvaldið en það er veikt, t.d. er ekki minnst á Hæstarétt, hvað þá á stjórnlagadómstól, sem ég tel mjög brýnt að verði komið á.

Ég ætla ekki að tefja þetta mál frekar. Þessi rök hafa öll komið fram áður. Ég vona að sú verði breyting núna að þetta frumvarp verði tekið til alvarlegrar og raunverulegrar skoðunar í þeirri nefnd sem fjallar um það, en hún er sérnefnd. Í ljósi rannsóknarskýrslu Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar sem ég tel vera afskaplega góðar, þ.e. skýrslurnar, ekki ákærurnar, bara til að hafa það alveg á tæru, þarf að styrkja Alþingi. Það er niðurstaðan í báðum þessum skýrslum, að nauðsyn sé að styrkja Alþingi og þess vegna eiga menn að taka svona mál virkilega til skoðunar og ef þeir vilja ekki samþykkja það þurfa þeir að færa rök fyrir því en ekki að svæfa málið í nefnd.