139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

16. mál
[17:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum, eins og áður hefur komið fram, tillögu til þingsályktunar um að fara í rannsókn á einkavæðingu bankanna eins og þar stendur. En væntanlega er, eins og fram kemur, verið að tala um sölu ríkisbankanna, Búnaðarbanka og Landsbanka, á árunum 2002–2003.

Svo að ég vitni í greinargerð, þar sem fjallað er um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, er tekið fram að ekki sé um að ræða heildarúttekt á einkavæðingu bankanna og tengdum málefnum. Engu að síður er í þeim kafla, í 1. bindi 6. kafla, fjallað umtalsvert mikið um þessa einkavæðingu og sölu ríkisbanka á þessum tíma.

Ég hef verið talsmaður þess að menn velti því fyrir sér til hvers eigi að rannsaka, hverju menn ætli að ná fram í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem góðu ljósi er varpað á að málið var klúður frá mörgum hliðum og þingið veitti heimild sína til aðgerða sem gerðu það að verkum að framkvæmdarvaldið gat gert það sem það vildi. Ég held að við getum klárlega dregið af því þann lærdóm að svona munum við ekki standa að málum í framtíðinni.

Í þingmannanefndinni, sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis, leggjum við beinlínis til að sett sé sérstök löggjöf, rammalöggjöf, um það hvernig eigi að fara fram þegar menn ætla að selja ríkisfyrirtæki, hvort sem það er að einkavæða þau eða selja til annarra opinberra aðila. Við leggjum til að slík rammalöggjöf sé sett og menn fari eftir henni og það sé sá lærdómur sem draga megi af þeim mistökum sem gerð voru á þessum tíma, að við höfum þegar lært það. Þingmannanefndin leggur jafnframt til að stjórnvöld á hverjum tíma marki sér stefnu og hún sé opinber, með hvaða hætti, hvaða fyrirtæki, og hvernig það ætli að standa að slíkri sölu en þeir verði þá að fara eftir þeirri rammalöggjöf sem sett hafi verið.

Ef við lítum til baka til þessa tíma þá eru þetta orðin sjö til níu ár. Ef menn hafa ætlað sér að rannsaka þetta mál með tilliti til laga um ráðherraábyrgð þá er ábyrgðin fyrnd, hún nær til þriggja ára. Ekki náum við neinum sérstökum ávinningi af því eða ég veit ekki hverju menn ætla að ná. Brot einkaaðila, ef það eru refsiverð brot, eru fyrnd líka. Þá stöndum við enn og aftur frammi fyrir þeirri spurningu hvaða lærdóm við ætlum að draga af frekari rannsókn á málinu og málatilbúnaði öllum. Ég hef fjallað um það hér að við getum þegar dregið þann lærdóm að við þurfum að setja rammalöggjöf um hvernig við ætlum að standa að sölu og einkavæðingu slíkra fyrirtækja, hvort sem það eru bankar eða fjármálafyrirtæki eða önnur fyrirtæki, og að það séu miklu skýrari reglur en menn höfðu á þessum tíma.

Annar þáttur í þessu máli er sá að við verðum að kunna að ljúka pólitískum ágreiningsefnum sem þetta mál sannarlega er og hefur verið um langt skeið. Við verðum að tileinka okkur einhverjar þær leiðir til að þetta haldi ekki áfram endalaust, að við höldum endalaust áfram að rífast um sömu málin. Við verðum að geta horft fram á við. Í þingmannanefndarskýrslunni — og var reyndar komið fram hjá forseta þingsins og forsætisnefnd — voru menn með hugmyndir um að breyta þingsköpum og setja á laggirnar sérstaka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins, sem mundi þá geta tekið slík mál upp að eigin frumkvæði eða tekið við tillögum frá þingmönnum eða þingmannahópum eins og hér kemur fram. Hún gæti fjallað um hvort skynsamlegt sé að fara í slíka rannsókn og yrði þá litið til fleiri þátta en einungis pólitískra þátta sem sá þingmannahópur sem fyrir því stæði mundi leggja fram. Í flestum tilvikum þyrfti það síðan að verða niðurstaða meiri hluta þeirrar nefndar, eða helst allrar nefndarinnar, að æskilegt sé að fara í slíka rannsókn. Þá mundu menn taka til öll þau álitaefni sem menn vildu láta rannsaka.

Nú eru listuð upp í þó nokkrum liðum í greinargerð, í stafliðum frá a og upp í o, álitaefni sem mætti rannsaka. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var með hugmyndir, á svipuðum tíma og þessi þingsályktunartillaga var rædd sem breytingartillaga við þingmannaskýrsluna, um frekari rannsókn, um víðtækari rannsókn á einkavæðingunni. Ekki væri óeðlilegt að taka þá tillit til þeirrar tillögu við þessa meðhöndlun — ef sett yrði á laggirnar sérstök rannsóknarnefnd og sérstök lög um hana er eðlilegt að tekið yrði tillit til þeirrar tillögu jafnframt. Þar var fjallað um að menn mundu þá í leiðinni taka til skoðunar seinni einkavæðingu bankanna sem varð nú þegar slitastjórnirnar tóku gömlu bankana yfir og stofnaðir voru nýir bankar með mismiklu eignarhaldi ríkisins. Landsbankinn er að stærstum hluta í eigu ríkisins en ekki Búnaðarbankinn og þá er Íslandsbanki eða Glitnir kominn í þennan hóp, sem ekki var áður, því að hann var hvorki einkavæddur né seldur á sínum tíma frá ríkinu.

Ég held að við ættum aðeins að velta því fyrir okkur hvort við séum helst til fljót með þennan feril, hvort við hefðum átt að bíða eftir þessari stjórnskipuðu eftirlitsnefnd eða hvort við skoðum þetta með opnum huga. En ég minni á að við verðum líka að fara að læra að ljúka málum og vita til hvers við erum að skoða hlutina, hvaða ávinningi við ætlum að ná með þeirri skoðun.