139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum, held ég, á hverjum einasta degi og alls staðar þar sem menn koma fram um virðingu þingsins, breytt vinnubrögð og mikilvægi þess að við vinnum hér saman. Ég ætla ekki að fara yfir hversu mikilvægt það er. Ég tel hins vegar að það séu ákveðin grundvallaratriði sem menn verða að hafa til hliðsjónar ef menn meina það. Til dæmis held ég, og það er ekkert nýtt, að það sé skýr skylda framkvæmdarvaldsins að svara skýrt fyrirspurnum frá þinginu.

Ég er hér með tvö dæmi, annars vegar um að hæstv. forsætisráðuneyti er með hreina og klára útúrsnúninga og hins vegar að það sinnir ekki því að svara fyrirspurnum. Annað er um það þegar við afgreiddum í þinginu fyrir nokkrum vikum sameiningar í Stjórnarráðinu. Ég tel að það sé á engan hallað þegar það er sagt að framkvæmdarvaldið var ekkert að þreyta þing eða þjóð með röksemdafærslu fyrir því af hverju það var gert. Hins vegar kom það fram á síðustu metrunum að það væri mikið um gögn og greinargerðir í forsætisráðuneytinu um það hvernig ætti að ná fram hagræðingu og sameiningu stofnana þvert á ráðuneyti. 10. september skrifaði ég bréf til forsætisráðherra og fór fram á að fá þessi gögn. Ég hef ekki fengið neitt svar. Ég bið þess vegna virðulegan forseta og þá sem eiga hlut að máli að ganga eftir því að þessu verði svarað.

Hv. þm. Óli Björn Kárason spurði hæstv. forsætisráðherra um sérfræðikostnað og sérstaklega þann sem snýr að starfsmönnum háskólans. Svar forsætisráðherra, virðulegi forseti, var: Ráðuneytið hefur ekki starfsmannalista háskólanna og svaraði þar af leiðandi ekki spurningunni. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég mun fylgja þessari fyrirspurn eftir með linkinn á starfsmannalista háskólanna en hann er á internetinu.