139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Skúli Helgason endaði og taka undir margt af því sem kom fram í máli hans. Það er alveg ljóst að samfélagið er mjög brothætt, við urðum öll vitni að mótmælunum sem voru úti á Austurvelli. Ég vil fyrir mitt leyti fagna því að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi nú opnað á þann möguleika að ráðast í almennar skuldaniðurfellingar. Það er einmitt eitt af því sem hefur verið gagnrýnt í störfum ríkisstjórnarinnar en Lilja Mósesdóttir hefur verið mjög ötul við að tala máli skuldsettra heimila og fyrirtækja. Ég tel að þingið allt verði að leggjast á eitt í þessu efni. Nú verðum við að stíga upp úr þeim skotgröfum sem við höfum verið í í þessu máli, snúa bökum saman og leita allra mögulegra leiða til að ráðast í róttækar aðgerðir í samfélaginu.