139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir orð hennar um upplýsingar. Ég veit að hún er einlæg í þeirri afstöðu sinni og mun fylgja því eftir. Stóra málið sem við höfum rætt hér er að við þurfum að sýna athafnir í stað orða þegar kemur að skuldamálum heimilanna. Við þurfum að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna, það er krafa um almennar leiðréttingar og við þurfum að koma atvinnumálunum af stað. Við erum að tala um ný vinnubrögð. Þá höfum við ekki efni á því að búa til endalaus ný hugtök og tala um þessa hluti, þetta snýst bara um að fólkið vinni saman.

Það snýr að stærstum hluta að forustunni í ríkisstjórninni, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við getum ekki boðið þjóðinni upp á einhvern spuna um fundarboð, það er ekki hægt, við skulum bara hætta því núna. Ef menn boða til fundar eða segja í fjölmiðlum að einhver hafi verið boðaður til fundar sem ekki hefur verið boðaður eru menn fyrst og fremst að slá keilur í fjölmiðlum, menn reyna þá ekki að setjast niður til þess að vinna af einlægni að málinu.

Það er allt of mikið undir núna. Hættum þessum hráskinnaleik. Það er öllum ljóst — hv. þm. Pétur H. Blöndal er bara eitt dæmi um hvernig menn vinna sem stjórnarandstaða í nefndum. Ég er búinn að biðja um það í þrjár vikur að viðskiptanefnd hittist til þess að fara yfir gengistryggðu lánin, dóminn. Það er ekki til þess að vera í einhverri pólitík, það er vegna þess að við verðum að fara yfir það.

Virðulegi forseti. Einhver skrifaði á bloggið sitt — ég held að það hafi verið Egill Helgason — þegar umræðan var um fundinn: Við vorum ekki að biðja um fundi, við vorum að biðja um aðgerðir. Og það er það sem þetta snýst um. Þetta snýr að okkur, við skulum ekki flækja það, göngum í málin. Ég veit að hv. þingmenn stjórnarliðsins vilja það en það þarf að breyta ákveðnum vinnubrögðum hjá forustu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og ég treysti því að hv. stjórnarþingmenn fylgi því eftir.