139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í lok janúar 2009 þegar rætt var um þjóðstjórn á Íslandi komu nokkrir þingmenn fram, t.d. þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, og sagði að ekki þyrfti fleiri um aðgerðaleysið, það mundi duga að Samfylkingin og Vinstri grænir væru á því sviði. Auðvitað áttaði sig enginn á því á þeim tíma að verið var að boða nýja aðgerðaleysisstefnu nýju ríkisstjórnarinnar. Það trúði því auðvitað enginn í raun en nú er komið á daginn að það var það sem verið var að tala um. Og að sjálfsögðu var það rétt hjá hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra að ekki þyrfti nema þessa tvo flokka til að gera ekki neitt.

Það sem við ræðum í dag sýnir ágætlega fram á að það hefur ekki staðið á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eða öðrum þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna í þinginu á vettvangi nefnda að eiga ágætissamstarf við stjórnarflokkana um lausnir á einstaka málum. Það hefur ekki staðið á okkur. Við erum hins vegar ekki tilbúin til að taka þátt í einhverju sjónarspili ríkisstjórnarinnar sem er gjörsamlega vanhæf um að leysa öll stærstu vandamál þjóðarinnar á þessum tíma uppi í ráðuneytum með ráðherrum þegar það er ekkert sem liggur fyrir um stefnu stjórnarinnar. Stjórnin er ekki með stefnu í neinu af mikilvægustu málunum, ekki í atvinnumálum, hún getur ekki laðað hingað fjárfestingu, henni er algjörlega fyrirmunað að koma með lausnir sem duga vegna vanda heimilanna. Og samstarfið sem menn tala hér um, hv. þm. Skúli Helgason talar fyrir því að nú þurfi að halda þjóðfundi um allt land, það segir auðvitað ekki neitt annað en að landið sé stjórnlaust. Það er það sem hv. þingmaður er að segja. Hann segir að ríkisstjórnin ráði ekki við málið og nú þurfi þingið að taka völdin. Ég get tekið undir það, landið er stjórnlaust vegna þess að hér skortir stefnu. Það sem við þurfum fyrst og fremst nú er ný, skýr stefna, stefna sem laðar að fjárfestingu, stefna sem skapar ný störf, og við munum ekki láta á okkur standa, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, (Forseti hringir.) að leiða fram lausnir vegna skuldavanda heimilanna en það er ríkisstjórnin sjálf sem hefur verið aðalvandamálið í því efni.