139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:43]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og frumvarpið er útbúið er hvorki gert ráð fyrir því að hægt sé að takmarka ræðutíma við umræðu um fjárlagafrumvarpið né umræðu um stjórnarskrá. Það er vegna eðlis þessara mála. Þau þurfa mikla umræðu.

Hins vegar er það alveg rétt að það var einn flokkur sem kom í veg fyrir breytingar á stjórnarskránni síðast, og það var Sjálfstæðisflokkurinn. Það muna allir sem voru í aðdraganda síðustu kosninga hér inni.

Ég legg ekki til breytingar á þessu, ég legg ekki til takmarkanir á ræðutíma um stjórnarskrá. Ég held hins vegar að ef við náum þessu í gegn núna, að breyta umræðuhefðinni og umræðutímanum um öll önnur mál en stjórnarskrána og fjárlögin, verði málþóf um þau mál illa liðin í samfélaginu, þá erum við að fara svolítið út úr þessu málþófsumhverfi. Og þá mun almenningur furða sig á því ef það verður málþóf um fjárlög eða málþóf um stjórnarskrá (Forseti hringir.) þannig að ég hef ekki verulegar áhyggjur af þessu.