139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:45]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nota þessa mínútu til að undirstrika að þó að við séum svolítið að ræða um málþóf hér í andsvörum, og ég kom líka inn á málþóf í ræðu minni, er það ekki beini hvatinn að þessu máli. Ég vona að hv. þingmenn tapi sér ekki í umræðunni um málþóf hér á eftir. Það er bara svona aukaafurð. Ég vil losna við málþófið, ég viðurkenni það og tel að það sé ljótur svipur á þinginu og skili engu þegar upp er staðið. En megintilgangurinn með frumvarpinu er að breyta umræðuhefðinni frá degi til dags. En málþóf er bara stundað hér rétt fyrir þinglok, rétt fyrir jólahlé og sumarhlé. Þetta mál gengur miklu meira út á það, og þar er ávinningur, þar er stóri ávinningurinn, að skipuleggja vinnu þingsins dag frá degi. Og ég vona að umræðan hér verði mest um það varðandi þessar breytingar.