139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Umræðunni um Icesave má skipta í tvennt. Fyrsta frumvarpið sem flutt var á grundvelli samningsins 5. júní 2009 hefði þá þegar verið samþykkt ef þessar reglur hefðu gilt. Forsetinn hefði ekki haft neina ástæðu til að hafna undirskrift, Indefence hefði ekki verið komið í gang o.s.frv. Við sætum uppi með 50–70 milljarða aukin útgjöld á ári í vexti — bara í vexti. Og þjóðin væri að horfa upp á gjaldeyristekjur streyma út úr landinu, vinnandi fyrir útlendinga alla daga. Ef menn segja að vandamálin séu mörg núna þá væru þau margföld í þeirri stöðu.

Ég vil að þetta verði skoðað mjög nákvæmlega því vegna flokksræðisins og ráðherraræðisins sem við búum við í dag yrði þetta hrein afgreiðsla fyrir framkvæmdarvaldið.