139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög merkt og mikilvægt mál að ég tel. Ég þakka hv. þingmanni Siv Friðleifsdóttur fyrir framgöngu hennar í þessu máli. Það snýr að því að breyta bæði umræðuhefð og skipulagi á tíma þingsins. Ég held að það sem hún lagði áherslu á sé mikilvægt, þetta snýr að því að tími þingsins nýtist betur og skipulagið á vinnunni verði betra.

Ég fékk dagskrá þingsins afhenta áðan. Ég mætti í vinnu kl. hálfellefu í morgun, hálftíma síðar fékk ég nýja dagskrá um það hvernig vinnudagur minn ætti að vera. Undantekningarlítið fæ ég þessa dagskrá einhvern tímann að kvöldi dags daginn áður en ég á að mæta í vinnuna þar sem kemur þá t.d. í ljós að ég eigi að vera með ræðu snemma morguninn eftir. Þetta kallar á talsvert álag, sérstaklega fyrir foreldra sem eru með yngri börn og þetta kallar á vinnutíma sem mætti vera með öðrum hætti.

Draumur minn er sá að á sunnudegi verði send út dagskrá vikunnar fyrir þingið og það verði hægt að halda sig við hana að meira og minna leyti og með takmörkunum eða skipulagi á ræðutíma þingmanna í einstökum málum er það hægt. Þá er einfaldlega hægt að láta dagskrá mánudagsins rúlla áfram yfir á þriðjudaginn og svo aftur yfir á miðvikudaginn ef þörf krefur og klára svo málin eða vikuna á föstudegi ef eitthvað stendur út af í umræðunni. Það skipulag held ég að væri til mjög mikilla bóta.

Þetta er ágætt mál. Þetta breytir umræðuhefð líka. Þetta breytir þessu málþófi sem er í raun þinghefð og á sér rætur í því að hér er hefð fyrir of miklu meirihlutaræði, þ.e. lýðræðið snýst um það að meiri hlutinn ræður, en mér finnst að meiri hlutinn eigi að ráða í samráði við minni hlutann líka því annars ber þetta keim af einhverju sem menn hafa stundum kallað meirihlutaofbeldi, sem er ekki gott orð, en segir kannski við hvað er átt.

Ég styð þetta frumvarp með þeim fyrirvara náttúrlega, sem er eins og margir af þeim fyrirvörum sem hafa komið fram, að möguleikar minni hlutans til þess að stöðva mál séu verndaðir með einhverjum hætti. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé hægt í undantekningartilvikum, sem ég leyfi mér að kalla, að stöðva mál sem minni hlutinn er mjög ákveðið á móti.

Hv. þingmaður Pétur Blöndal nefndi Icesave áðan sem dæmi um það. Það hefði verið hægt að vísa því máli til þjóðaratkvæðagreiðslu af hálfu þingsins ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki haldið uppi málþófi gegn þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir síðustu kosningar, þannig að þetta bítur svolítið í skottið á sjálfu sér í þessu tilviki. En við hjá Hreyfingunni höfum tvisvar sinnum lagt fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem ákveðinn hluti landsmanna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og einn þriðji hluti þingmanna getur vísað frumvörpum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er hefð sem er þekkt frá Danmörku og það sem er merkilegt við hana er að þar hefur hún bara verið notuð einu sinni.

Ég tel að sú freisting minni hluta þingsins að grípa til þessa úrræðis í tíma og ótíma yrði kannski fyrir hendi en menn mundu ekki falla í hana. Í fyrsta lagi vegna þess að meiri hlutinn býr þá einfaldlega við þær aðstæður að þurfa að ná betra samkomulagi við minni hlutann og í sjálfu sér dregur það úr þörfinni á því að nota þetta.

Í öðru lagi mundi vera litið á það sem mjög óábyrga hegðun að beita þessu ákvæði með einum þriðja hluta þingmanna sí og æ í alls konar málum sem ákveðnum flokkum væri kannski illa við en það að einn flokkur hefði þriðjung þingsæta gæti vel komið upp.

Í þriðja lagi er þetta ákvæði þess eðlis að þó svo að þriðjungur þingmanna muni vísa frumvarpi til þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er það að mínu mati einfaldlega góð leið fyrir mál sem deilur eru um því ef þingið er mjög ósammála um eitthvert tiltekið mál er það kannski eðlilegur farvegur að álits þjóðarinnar á því sé leitað.

Ég sé fyrir mér að það verði í gangi lýðræðisstofa sem skipuleggur þjóðaratkvæðagreiðslur eftir þörfum og hægt væri að halda þær kannski einu sinni eða jafnvel tvisvar á ári á einhverjum fyrir fram ákveðnum dögum eins og gert er sums staðar. En ég merki það á þingmönnum að menn eru svolítið smeykir við það að þriðjungur þingmanna geti vísað málum til þjóðaratkvæðagreiðslu og smeykir við að það verði misnotað. Þetta ákvæði mun gjörbreyta umræðuhefðinni vegna þess að þingmenn neyðast til að taka meira tillit hver til annars og ég held að umræðuhefðin hér á þingi muni ekki breytast nema menn séu þvingaðir til þess. Mannlegt eðli er held ég einfaldlega þannig og þess vegna höfum við nú einu sinni lög í landinu og Alþingi til að setja lög að það þarf að þvinga athafnir mannanna með ákveðnum hætti í ákveðinn farveg til að hér verði ekki algjört stjórnleysi og að því leytinu til er þetta skref í þá átt.

Hér var aftur tæpt á aðferð sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi um að hægt væri að fresta málum og kæla þau. Ég held að ef eitthvert svoleiðis ákvæði kæmi inn sem millistig, að áður en þriðjungur þingmanna mundi t.d. vísa máli til þjóðaratkvæðis væri hægt að óska eftir því að því yrði frestað í þrjár vikur eða sex vikur, það yrði kælt og reynt að ná frekara samkomulagi um það. Ef það tækist ekki gæti síðasti öryggisventill minni hlutans verið að vísa því til þjóðaratkvæðis. Þannig að mér fannst þetta mjög merkilegt innlegg hjá hv. þingmanni sem talaði hér næst á undan mér og ég mundi mjög gjarnan vilja skoða það ferli að vernda þennan rétt minni hlutans.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta frumvarp. Ég er sjálfur áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd. Ég veit að mikill áhugi og velvilji er hjá allri nefndinni til þess að bæta störf þingsins. Það er ánægjulegt fyrir mig að geta verið þátttakandi í því starfi og ég fagna því að þingið sé á réttri leið í þeim málum, þótt það fari e.t.v. kannski hægar en ég mundi oft vilja kjósa þá er alla vega verið að vinna þar góða vinnu.