139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:39]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel eðlilegt að allsherjarnefnd skoði þetta. En meginhugsunin er að við getum nokkurn veginn áætlað heildarlengd á umræðum. Ef við búum til loft í því þannig að allir 63 þingmenn, ef við drögum ráðherrana frá erum við komin vel yfir 50, eigi kannski þriggja mínútna lágmarkskvóta, þetta verði svolítið í anda kvótakerfis. Maður á auðvitað búa til kerfi sem er minna áreiðanlegt en stundaskrá. Það að takmarka umræðutímann er bara aðferð til að búa til stundaskrá fyrir þingið, eins og í skóla — skóladagurinn hefst klukkan þetta og er búinn klukkan þetta, þessi tími byrjar núna og svo byrjar næsti tími. Best er að hafa sem minnst loft í þessu fyrir fram til að geta staflað umræðum í rétta röð og röð sem heldur.

Það má vel vera að sé hægt að finna einhverja aðferð til að hafa eitthvert rými fyrir þá þingmenn sem hafa mikla þörf á að koma í pontu út af einhverjum málum en hafa ekki fengið úthlutað frá sínum þingflokki neinum ræðutíma. Ég held að það verði ekki vandamál. Það er ekkert stórfenglegt vandamál í dag varðandi aðrar umræður þar sem er takmarkaður ræðutími. Það er takmarkaður ræðutími í utandagskrárumræðum og stefnuræðum og jú, jú, stundum er togast á um hver eigi að tala. Varðandi umræður sem eru mjög oft, eins og utandagskrárumræður, er almennt, held ég, ekki mjög mikið tog innan þingflokka um það. Reynt er að gæta jafnræðis og að allir fái að komast að og þeir sem vita eitthvað um málin af því að þeir eru í viðkomandi nefndum komist að. Ég sé þetta ekki sem mikið vandamál, virðulegur forseti.