139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:43]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samkvæmt frumvarpinu á forsetinn að gera tillögu við 1. umr. þegar málin koma hingað inn og enginn er búinn að fara neitt nákvæmlega ofan í þau. Það er því á herðum forseta að gera tillögur um umræðutíma í 1. umr. um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur og skýrslur. Þegar tillagan væri komin fram mundu þingmenn greiða um hana atkvæði og vera sammála ræðutímanum sem forseti legði til eða hnekkja honum. Þá þarf að koma fram önnur tillaga. Ef forseti hefur t.d. talið nægja að tala um eitthvert mál í fjóra klukkutíma en þingið vill fá lengri tíma hnekkir þingið þeirri tillögu og yrði þá að ganga gegn forseta sem væri í flestum tilvikum erfitt, t.d. fyrir stjórnarflokkana miðað við hvernig mál hafa skipast hér í gegnum tíðina.

Varðandi 2. og 3. umr. er lagt til í frumvarpinu að það verði þingnefndin, sem var með málið til umfjöllunar, sem geri tillögu sem yrði reyndar lögð fyrir forseta og forseti bæri hana svo fram, gæti væntanlega breytt henni en það mundi held ég skapa mikinn óróa í þinginu og þyrfti forseti að hafa gríðarlega sterk rök ef hann ætlaði að breyta tillögu nefndar.

Ég tel að nefndirnar hafi yfirsýnina yfir málin þannig að þær eru best til þess bærar að leggja til ræðutíma í 2. og 3. umr. Yfirleitt er það 2. umr. sem er löng. Nefndin skynjar hvaða mál eru flókin og hve mikið þarf að upplýsa og hve mikið þarf að útskýra lagagreinarnar o.s.frv. miklu frekar en forseti. Auðvitað þurfa allar þessar tillögur að koma með góðum fyrirvara til forseta svo að forsætisnefnd geti raðað upp heildardagskránni.

Ég tel ekki æskilegt að forseti geri einhliða tillögu um ræðutíma (Forseti hringir.) í 2. og 3. umr., hvatinn eigi að koma frá nefndinni.