139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[12:46]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem ég mæli fyrir má segja að sé gamall kunningi. Á sínum tíma flutti ég svipað mál sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á 135. löggjafarþingi. Það mál hlaut þá ekki afgreiðslu. Ég flutti síðan málið ásamt hv. þingmönnum Kristjáni Þór Júlíussyni, Pétri H. Blöndal, Gunnari Braga Sveinssyni, Sigurði Inga Jóhannssyni, Ásbirni Óttarssyni og Jóni Gunnarssyni á 138. löggjafarþingi, þ.e. síðasta löggjafarþingi. Þá fékk málið nokkra umræðu við 1. umr. Að því búnu var málinu vísað til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar en var því miður ekki afgreitt þar. Það var hins vegar sent út til umsagnar og bárust sjö efnislegar umsagnir um það sem voru nær allar á þann veg að mælt var með samþykkt þess. BSRB gerir ekki athugasemdir við frumvarpið en félagið er ásamt ASÍ í verðlagsnefnd búvara og þekkir mjög vel til þessara mála. Málið snertir m.a. störf þessarar nefndar. Bændasamtökin mæltu með því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Neytendasamtökin styðja frumvarpið efnislega þótt þau telji það ganga of skammt. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa ekki efnislegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar og Viðskiptaráð lýsir ánægju með framlagt frumvarp. Samkeppniseftirlitið leggst ekki gegn frumvarpinu en telur að breyta þurfi öðrum greinum laganna sem frumvarpinu er ætlað að breyta.

Ég vil segja af þessu tilefni að þetta frumvarp getur staðið alveg sjálfstætt. Þau atriði sem Samkeppniseftirlitið vakti athygli á og gerði tillögu um snerta í raun og veru ekki þetta frumvarp sem slíkt. Þau lúta að öðrum þáttum laganna sem eru málinu í raun alveg óskyld í þeim skilningi. Þetta mál getur staðið sjálfstætt. Ég tel þess vegna eðlilegast að þingið taki afstöðu til þessa máls eins og það liggur fyrir.

Megintilgangurinn með þessu lagafrumvarpi er að draga úr millifærslukerfi í landbúnaði og gera verðlagningu gagnsærri. Má ætla að með þessu verði skilyrði fyrir samkeppni einnig bætt og innlendum mjólkurafurðastöðvum gert betur kleift að takast á við samkeppni frá útlöndum. Þá mun skilgreindur opinber stuðningur við landbúnað lækka um allt að 400 millj. kr.

Ég vil aðeins koma að þessu síðasta atriði. Eins og við vitum fer fram samanburður á opinberum stuðningi við landbúnaðinn eftir löndum þar sem þær 400 millj. kr., eða þar um bil, sem um er að ræða eru taldar með sem stuðningur við landbúnað. Það er mjög ósanngjarn samanburður sem þannig verður til. Í því tölulega alþjóðlega samhengi má segja að verið sé að ýkja raunverulegan opinberan stuðning við landbúnaðinn. Við erum eingöngu að tala um millifærslukerfi sem er innan landbúnaðarins sjálfs þar sem innleggjendur greiða í tiltekna sjóði, í verðjöfnunarsjóð, bæði vegna verðmiðlunar og verðtilfærslna. Það gerir það að verkum að eins og það er sett upp er verið að ýkja opinberan stuðning við landbúnaðinn.

Ekki er ástæða að mínu mati að fara ítarlega yfir efnisþætti frumvarpsins við þessa umræðu, það er flestum kunnugt enda hefur málið áður komið fram þinginu. Það hefur líka komið til umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á fyrri stigum.

Ég vil hins vegar segja að ég hef hlustað af athygli á margar ræður sem fluttar hafa verið á síðustu dögum og alveg sérstaklega á þessum morgni þar sem stefið hefur verið svona: Nú eru runnir upp nýir tímar. Nú á Alþingi næsta leik. Alþingi á að starfa sjálfstætt. Alþingi á að sýna að það er ekki undir hælnum á framkvæmdarvaldinu. Alþingi á að taka afstöðu til mála.

Þetta eru út af fyrir sig áhugaverðar umræður og nú gefst kjörið tækifæri til þess að breyta orðum í athafnir. Það frumvarp sem lagt hefur verið fram hefur þegar fengið umfjöllun. Kallað hefur verið eftir umsögnum og þeir sem fengu umsagnarbeiðnir áttu þess kost að setja fram sjónarmið sín. Þau liggja núna fyrir. Þetta er fyrsta málið sem koma mun til kasta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.

Það liggur fyrir, eins og ég rakti í ræðu minni, að það er býsna góð samstaða um efni frumvarpsins. Að mínu mati er þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd afgreiði málið tiltölulega hratt. Nú hefur fyrsta vika októbermánaðar brátt runnið sitt skeið. Það er ekki óraunhæft að málið verði afgreitt ekki síðar en í byrjun nóvembermánaðar. Ég lýsi því yfir hér og nú að ég mun gera tillögu um það í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að málið verði afgreitt efnislega úr nefndinni og eigi síðar en í byrjun nóvembermánaðar. Þá höfum við haft mánuð til þess að fara yfir það í góðu tómi, fara yfir umsagnirnar, ræða málin og taka afstöðu til þess. Ég trúi því ekki öðru, í ljósi allra þeirra miklu svardaga sem hafðir hafa verið uppi í þinginu í dag og undanfarna daga, en að menn bregðist vel við tillögu minni og afgreiði málið, sérstaklega í ljósi þess að allir aðilar sem að málinu koma með einhverjum hætti, í fyrsta lagi bændur, í öðru lagi afurðastöð bænda og í þriðja lagi fulltrúar neytenda í verðlagsnefnd búvara, hafa lýst því yfir að þeir telji skynsamlegt að málið sé afgreitt frá Alþingi. Þeir aðilar sem helst hafa haft uppi vott af gagnrýni um málið gera það ekki á forsendum þess frumvarps sem liggur fyrir heldur á þeirri forsendu að ganga þurfi að lengra á öðrum sviðum varðandi breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það er sjónarmið sem við gætum rætt og getum örugglega rætt síðar. Það breytir engu um efnisniðurstöðu þessa frumvarps. Þetta frumvarp stendur með öðrum orðum sjálfstætt. Þess vegna er ekkert að vanbúnaði að við afgreiðum það.

Þeir miklu svardagar sem hafðir hafa verið uppi undanfarna daga benda til þess að þinginu sé mikil alvara með þeim orðum sem látin hafa verið falla. Þess vegna mun reyna mjög mikið á trúverðugleika þess málflutnings á næstu vikum, hvernig menn munu bregðast við, hvernig menn taka t.d. á málum sem koma frá stjórnarandstæðingum, hvernig menn taka á málum sem koma frá einstökum þingmönnum. Þess vegna er brýnt að þingið sýni í verki að það er mikil alvara á bak við þau orð sem fallið hafa á síðustu dögum og ekki síst núna í morgun. Í ljósi þess ítreka ég að ég mun leggja það til í störfum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar strax og hún kemur saman að stefnt verði að því að afgreiða málið við fyrsta hentugleika og eigi síðar en í byrjun nóvember.