139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[12:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta öðru en því að árétta það mikilvægi sem hefur verið styrkur landbúnaðarins, sem er hinn félagslegi styrkur og að menn hafa unnið saman og tekið á jöfnunaraðgerðum innan félagsskaparins. Ég legg áfram áherslu á að staðinn verði vörður um að mjólkurframleiðendur við Ísafjörð eða á Norðausturlandi og Suðausturlandi eða annars staðar á landinu geti átt beinan félagslegan aðgang og félagslega samstöðu í framleiðslu og markaðssetningu sinni á vörum með öðrum bændum hvar sem er á landinu. Eins og hv. þingmaður kom inn á er það orðið tryggt innan kerfisins sjálfs. En engu að síður er okkur mikilvægt að halda þessum sjónarmiðum rækilega til haga þannig að ekkert gerist í lagasetninga okkar sem getur látið málin þróast á einhvern annan veg öðruvísi en að það meginmarkmið sem ég hér minntist á sé tryggt.