139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

staða Hæstaréttar Íslands í ljósi málaferla fyrir landsdómi.

[14:02]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku samþykkti meiri hluti alþingismanna að höfða sakamál á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi og krefjast refsingar yfir honum. Nýbakaður hæstv. dómsmálaráðherra Ögmundur Jónasson sem einnig gegnir embætti mannréttindaráðherra greiddi ákærunni atkvæði sitt og kolféll þar að mínu mati á fyrsta prófinu sem fyrir hann var lagt sem slíkur. (Gripið fram í.) Ég get í sjálfu sér haft mörg orð um það hversu fráleita ég tel þessa málshöfðun vera og ég get líka farið yfir það hversu dapurlegt það var að horfa upp á Alþingi Íslendinga eyða öllum sínum tíma og kröftum í umræður um þessa málshöfðun á meðan önnur og brýnni viðfangsefni bíða hér úrlausnar og eldar brenna um allt í þjóðfélaginu. Ég ætla að spara mér það í bili því að nú liggur fyrir að landsdómur verður kallaður saman.

Eins og alþjóð veit eru þessar stofnanir, dómstólarnir, grundvallarstofnanir í samfélagi okkar og þeir eru að springa. Málafjöldinn er slíkur að þeir ráða vart við þau verkefni sem þeim hafa verið falin. Þá bendir allt til þess að dómsmálum muni fjölga gríðarlega á næstunni, jafnvel um tugi þúsunda, ekki síst vegna ágreiningsmála sem varða slitastjórnir og skilanefndir bankanna. Þá liggur fyrir að dómstóla og þá ekki síst Hæstaréttar Íslands bíða mörg vandasöm verkefni til úrlausnar á næstu missirum.

Þessa dagana eru t.d. rekin dómsmál þar sem látið er reyna á lögmæti neyðarlaganna. Fyrirsjáanlegur er réttarágreiningur um fordæmisgildi dóma um ólögmæti gengistryggðra lána gagnvart gengistryggðum húsnæðislánum og lánum fyrirtækja, og fleiri dómsmál sem varða skuldavanda heimila og fyrirtækja eru í farvatninu. Gera má ráð fyrir að höfðuð verði sakamál gegn sakborningum sem gegndu lykilhlutverkum í fjármálakerfinu fyrir bankahrun, uppgjör á þrotabúum fjármálafyrirtækjanna bíða úrlausnar ásamt fjölmörgum dómsmálum sem hafa mikla þjóðfélagslega þýðingu, varða allan almenning í landinu og skipta sköpum fyrir endurreisn samfélagsins.

Virðulegi forseti. Það er við þessar aðstæður sem landsdómur er kallaður saman. Sú ákvörðun kann að verða mjög afdrifarík fyrir dómskerfið í landinu. Dómarar við Hæstarétt Íslands eru einungis níu talsins. Þeir fimm dómarar við réttinn sem reyndastir eru taka nú sæti í landsdómi og munu líklega ekki gera mikið annað en að sinna dómstörfum þar meðan á málarekstri gegn fyrrverandi forsætisráðherra stendur. Málarekstur í dómskerfinu tekur langan tíma. Þegar málsmeðferðarreglur landsdómslaga eru skoðaðar má gera ráð fyrir að landsdómsmálið yfir Geir H. Haarde muni taka óralangan tíma. Saksóknari þarf að rannsaka málið frá grunni og það þarf landsdómur líka að gera fyrir sitt leyti. Þegar allt er tiltekið má varlega gera ráð fyrir að niðurstaða landsdóms muni ekki liggja fyrir fyrr en að einu eða jafnvel tveimur árum liðnum. Þessi langa málsmeðferð verður að sjálfsögðu þungbær fyrir þann einstakling sem í hlut á en hún kann ekki síður að leiða til þess að úrlausn annarra mála, þar á meðal þeirra sem ég hef hér nefnt, muni tefjast verulega í réttarkerfinu. Í raun má segja að raunveruleg hætta sé á því að dómskerfið muni leggjast á hliðina, a.m.k. tímabundið, verði ekki gripið til róttækra aðgerða. Ég varaði við þessari hættu í ræðu sem ég hélt um ákærurnar gegn fyrrverandi ráðherrum en fékk engin viðbrögð frá hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra til hvaða ráðstafana hann hyggist grípa, nú þegar fyrir liggur að fimm reyndustu dómarar við Hæstarétt Íslands munu taka sæti í landsdómi og hvernig hann hyggist standa að þeim ráðstöfunum. Verður dómurum við Hæstarétt Íslands fjölgað, og þá um hve marga? Verða varadómarar kallaðir til eða nýir skipaðir? Verði dómurum fjölgað, verða þeir þá skipaðir tímabundið eða til frambúðar og hvernig verður staðið að þeim skipunum?

Ég tel mikilvægt að hæstv. dómsmálaráðherra veiti þinginu skýr svör við þessum fyrirspurnum mínum því að það verður að leita allra leiða í þeirri viðkvæmu stöðu sem nú er komin upp til að forðast það að réttarkerfið fari á hliðina ofan á allt annað.