139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

staða Hæstaréttar Íslands í ljósi málaferla fyrir landsdómi.

[14:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég lít svo á að það mál sem hér er tekið upp í utandagskrárumræðu sé einfaldlega eitt af þeim málum sem þarf að takast á við og finna lausn á og ég fæ ekki betur heyrt á máli hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra en að þetta mál sé í ákveðnu ferli, sé í athugun í ráðuneytinu og að ráðuneytið hafi sömuleiðis verið í sambandi við landsdóminn og Hæstarétt.

Nú er auðvitað ekkert nýtt að skipaðir séu setudómarar í Hæstarétti, það gerist oft og iðulega, t.d. þegar dómarar þurfa að segja sig frá störfum vegna hagsmunaárekstra eða vanhæfis. Ég lít þannig á að það sé einhver slík aðgerð sem verður gripið til við þær aðstæður sem koma upp þegar fimm dómarar úr Hæstarétti fara til starfa við landsdóminn, hvenær svo sem nákvæmlega það verður, og um þann tíma sem það verkefni mun taka er ómögulegt að segja á þessu stigi eða vera með vangaveltur um það. Mér sýnist að í ráðuneytinu sé einmitt unnið á þeim nótum.

Ég vil svo aðeins segja að ég get tekið undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að vegna álags í dómskerfinu almennt þarf væntanlega að gera ráðstafanir til að fjölga dómurum, a.m.k. tímabundið. Það kom líka fram í máli hæstv. ráðherra. Ein leið getur verið að fjölga dómurum í Hæstarétti um einhverja tiltekna tölu, hvort það eru sex eða fjórir eða eitthvað annað er kannski úrvinnslumál, en það kemur að mínu viti að sjálfsögðu til greina að gera það tímabundið og fækka þeim þá aftur yfir eitthvert tímabil eftir því sem núverandi dómarar láta af störfum fyrir aldurs sakir.

Mér sýnist, frú forseti, að málið sé í góðum farvegi og í góðum höndum hjá hæstv. ráðherra.