139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:48]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara formanni Sjálfstæðisflokksins að sinni, ég gerði það nefnilega í ræðustól árið 2007. (VigH: Láttu vaða aftur.) Umræðan núna fjallar um skuldavandann í þjóðfélaginu en umræðu um skuldavanda er hægt að nálgast með ýmsu móti. Menn hafa aðallega gert það á tvennan hátt, annars vegar með því að spyrja: Hvað er hægt að gera fyrir hinn skulduga, hvort sem það er einstaklingur, fjölskylda eða fyrirtæki? Þeirrar spurningar hafa stjórnvöld spurt, leitað svara við og komið með nokkrar úrlausnir á.

Ég nefni fyrst greiðslujöfnun sem hefur leitt til lækkunar á greiðslubyrði, fyrst og fremst með því að lengja í lánum og tengja afborgunarskilmála vísitölu launa og atvinnustigs. Í öðru lagi er um að ræða sértæka skuldaaðlögun í bönkunum en eins og hér hefur verið vakið máls á hefur hún náð til allt of fárra einstaklinga, aðeins 128 af 437 sem sótt hafa um slíkt innan bankanna. Þá vil ég nefna úrræði sem skiptir verulegu máli, en það er greiðsluaðlögun á vegum ríkisins, sem felur í sér að skuldir eru aðlagaðar að greiðslugetu einstaklinga og fjölskyldna og það sem umfram er er fellt niður. Þetta er raunverulegt úrræði sem skiptir raunverulegu máli. En til þess að það næði fram að ganga og gæti orðið að veruleika fyrir þá sem í hlut eiga setti Alþingi að frumkvæði ríkisstjórnarinnar á fót sérstakt embætti umboðsmanns skuldara. Það er nú að fóta sig og við erum að efla það eins og við mögulega getum en ýmis ljón eru í veginum.

Til dæmis hefur verið bent á að ríki og sveitarfélög hafa ekki komið sem skyldi inn í þessa aðlögunarpakka með sínar kröfur vegna skatta og annarra gjalda og það er nokkuð sem við erum nú að taka á á markvissan hátt þannig að ríki og sveitarfélög og hið opinbera komi einnig að þessari greiðsluaðlögun.

Síðan eru það lánsveðin. Þar þekkjum við öll hvernig háttar til á Íslandi. Einstaklingur, unga fjölskyldan, veðsetur eign sína og fær síðan veð að láni eða ábyrgð á einhvern hátt hjá foreldrum eða systkinum, fjölskyldunni. Þegar skuldir einstaklingsins eru síðan færðar niður standa þessi veð út af. Á þessu þarf að taka og við þurfum að leita samninga.

Þá vil ég nefna enn eitt sem að vísu er ekki úrræði í sjálfu sér heldur fyrst og fremst frestun á vanda og það er heimild sem fólk hefur haft til þess að fá lokanauðungarsölu frestað um þrjá mánuði. Þessi frestur var framlengdur í febrúarmánuði og á að renna út nú í októberlok en við höfum afráðið að framlengja þessa heimild til mánaðamótanna mars/apríl á næsta ári. (Gripið fram í.)

Síðan er það annað sem skiptir líka höfuðmáli og kom fram í tölu hæstv. forsætisráðherra hér áðan að ef fólk, einstaklingar eða fjölskyldur, skýtur máli sínu til eða leitar til umboðsmanns skuldara og hann tekur málið til umfjöllunar, þá gerist það sjálfkrafa ef hann óskar eftir því að eignin verður sett í frost og ekki boðin upp. Þetta er líka grundvallaratriði og veitir hinum skulduga rými til að taka á sínum málum.

Þetta eru allt saman úrræði sem verða að virka og hafa þegar hjálpað fjölmörgu fólki. (Gripið fram í: Allt of fáum.) Allt of fáum, það er alveg rétt, og við þurfum að greiða götu þessa fólks. Þeir sem koma að þessu samráði, þessari sameiginlegu vinnu okkar, eru ásamt okkur að finna leiðir til að greiða götu þessa fólks.

Síðan er það hin leiðin til að nálgast þennan vanda, sem skýrir að mínu mati reiðina sem er í þjóðfélaginu, og það er að nálgast málið á allt annan hátt en ég hef hér lýst, þ.e.: Hvað er hægt að gera fyrir hinn skulduga? Og það er þegar hinn skuldugi segir: Það á ekkert að gera fyrir mig, það þarf ekkert að gera fyrir mig. Það eina sem þarf að gera er að skila mér til baka því sem hefur verið oftekið af mér. Menn hafa horft þar til bankakerfisins sem fór á hausinn að hluta til vegna sviksemi innan fjármálakerfisins sem síðan leiddi til óðaverðbólgu sem svo þyngdi vaxtabyrðarnar. Við þekkjum öll verðbólguskotið.

Það er þetta sem Hagsmunasamtök heimilanna hamra á. Þau segja: Það á að færa höfuðstólinn niður og reikna með hámarksþaki á vísitölu frá 1. janúar 2008. Skilið okkur til baka því sem var oftekið af okkur.

Ég er sammála þessari grundvallarhugsun og við höfum ákveðið innan Stjórnarráðsins að vera opin fyrir þessari lausn líka, við erum opin fyrir henni. Hvernig er hægt að taka á þessu? Það væri hægt að gera það með lagaboði en þar er hængur á, einfaldlega vegna þess að það má reikna með því að höfðað yrði skaðabótamál á hendur ríkinu vegna þess að þetta yrði að mati einhverra brot á einkaeignarrétti. Síðan hefur verið bent á gagnrök í því máli líka.

En það er til önnur lausn. Það er lausn samráðs, þjóðarsáttar. Það er þetta sem Hagsmunasamtök heimilanna eru að kalla eftir og sem betur fer hafa flestir flokkar hér á Alþingi tekið vel undir það að við efnum til átaks, efnum til samráðs með öllum fjármálastofnunum í landinu, með lífeyrissjóðunum, með hinu opinbera, ríkinu, sveitarfélögum, verkalýðssamtökum og Hagsmunasamtökum heimilanna um þjóðarsátt um að færa skuldastabbann niður. (Forseti hringir.) Nú ríður á og ég bið þjóðina að fylgjast með því hverjir koma til með að verða hér innan dyra sem vilja vera með og taka í þá hönd sem hér hefur verið rétt fram. (Gripið fram í.) Það verður greinilega ekki Sjálfstæðisflokkurinn. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)