139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú eru tvö ár liðin frá efnahagshruninu, tvö ár, og á þeim tíma hefur alveg ótrúlega lítið gerst, sérstaklega þegar horft er til þess að það lá ljóst fyrir strax eftir hrunið að það mætti engan tíma missa. Þörfin fyrir aðgerðir væri slík bæði hvað varðaði heimilin og fyrirtækin. Þannig var það t.d. í febrúar árið 2009, febrúar í fyrra, að menn töldu að það lægi svo mikið á að það mætti ekki bíða í einn eða tvo daga með myndun ríkisstjórnar, það þyrfti að komast strax af stað, strax þann sama dag, í síðasta lagi á morgun, til að ráðast í nauðsynlegar bráðaaðgerðir fyrir heimili og fyrirtæki.

Þá var komið á minnihlutastjórn sem hafði það einfalda verkefni að hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd og hefði haft allt þingið á bak við sig í því. Því miður var sá tími ekki notaður þá og það sem er verra er að nú eru liðin hátt í tvö ár frá því að þetta var og ósköp lítið hefur bæst við. Í mars á þessu ári kynntu nokkrir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar tillögur að úrbótum varðandi skuldastöðu heimila. Þá var jafnframt tilkynnt að þar með væri allt fram komið, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði þennan dag, 7. apríl: Við leggjum áherslu á að nú þegar umgjörðin hefur verið … Nei, fyrirgefið, hér er ég að vitna í yfirlýsingu sem fylgdi síðan í kjölfarið til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ég ætla að koma aðeins inn á hana á eftir.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því þá yfir, eins og síðan var ítrekað í sendingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að allt væri fram komið sem gert væri ráð fyrir að gera fyrir heimilin og nú þyrftu menn bara að nýta sér þau úrræði sem til staðar væru. Þetta stafar líklega af því að allt frá því að þeir flokkar sem nú fara með völd komust í ríkisstjórn hafa þeir verið í algjörri afneitun um umfang vandans. Ég taldi á sínum tíma að allir gerðu sér grein fyrir því hversu víðtækur vandinn væri, en síðan höfum við hvað eftir annað séð hversu mikil afneitunin er og birtist hún m.a. í yfirlýsingu ráðherranna í mars.

Við höfum líka séð marga ráðherra halda ræður um það að ástandið sé miklu betra en menn hafi haldið og sé nú allt að lagast og að vandi heimilanna afmarkist við tiltölulega lítinn hluta íslenskra heimila, sem er einfaldlega rangt. Við sjáum það á tölum frá Seðlabankanum — sem reyndar voru dálítið sérkennilegar vegna þess að sleppt var að taka hina ýmsu útgjaldaliði heimilanna með í reikninginn — að þegar þeim útgjaldaliðum sem Seðlabankinn sleppti er bætt við er líklega um helmingur íslenskra heimila í þeirri stöðu að skulda meira en þau eiga. Þetta er náttúrlega stórkostlegt vandamál, þetta er umfangsmikið vandamál sem snertir tugþúsundir heimila en þetta er líka vandamál fyrir samfélagið allt því að þegar svona stór hluti samfélags er í vandræðum er samfélagið allt í vanda og þá duga ekki sértækar aðgerðir eins og þær sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir frá byrjun.

Það liggur núna fyrir í tölum sem hæstv. forsætisráðherra hefur birt sjálf að 128 manns hafa farið í gegnum sértæka skuldaaðlögun, 128 af þeim tugþúsundum sem á lausn þurfa að halda. Þetta var alveg hægt að sjá fyrir, á þetta bentum við strax þegar lagt var upp með þessar aðgerðir og töluðum fyrir mikilvægi almennra aðgerða, almennrar leiðréttingar skulda. Ríkisstjórnin kom með ýmis rök gegn því án þess, að því er mér fannst, að vilja kynna sér málið, kynna sér rökin sem þar lágu að baki og möguleikana sem þar voru, því að möguleikarnir voru til staðar, ekki hvað síst vegna þess að þá var ekki enn búið að flytja lánasöfnin á milli gömlu bankanna og þeirra nýju.

Eitt af því sem haldið var fram var að þetta væri ekki sanngjarnt vegna þess að þeir sem skulduðu meira fengju hærri krónutölu afskrifaða, þrátt fyrir að með leiðinni væri í raun fullkominnar sanngirni gætt vegna þess að verið var að færa alla aftur á þann stað sem þeir höfðu verið á fyrir hrunið. En það þótti ekki sanngjarnt að mati ríkisstjórnarinnar að þeir sem skulduðu meira fengju meiri niðurfellingu.

Hver hefur raunin orðið? Það hafa nánast bara þeir sem skulda mest, sérstaklega fyrirtæki, stórskuldug fyrirtæki, fengið afskriftir á meðan að fyrir þá sem skulduðu minna og hefðu kannski með leiðréttingu haft tækifæri til þess að vinna sig út úr vandanum hefur ósköp lítið verið gert. Þetta kraftleysi sem við sjáum í því að verja hag heimila og íslenskra fyrirtækja helst í hendur við alveg ótrúlega mikla fylgispekt við erlendar alþjóðastofnanir.

Þá komum við að yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fyrst 7. apríl, eftir yfirlýsingu ráðherranna um að ekki væri frekari aðgerða að vænta, þá segja ráðherrarnir, með leyfi forseta:

„Við leggjum áherslu á að nú þegar umgjörðin hefur verið mótuð og komið hefur verið upp aðgerðum fyrir heimilin verði engin frekari framlenging á frestun nauðungaruppboða og mun frystingu ljúka í lok október 2010.“

Þetta var ítrekað í yfirlýsingu nú í september en afneitunin er slík að jafnvel það sem ríkisstjórnin sendir frá sér á prenti þrætir hún svo fyrir daginn eftir. Svo kemur þessi málflutningur sem hefur verið mjög áberandi hjá talsmönnum ríkisstjórnarinnar og álitsgjöfum sem eru hallir undir ríkisstjórnarflokkana að vandinn sé ekki ríkisstjórnarinnar heldur sé vandinn stjórnmálanna, pólitíkin þurfi að vinna meira saman.

Þetta er í fyrsta skipti svo ég viti til sem ríkisstjórn telur að vandinn liggi ekki hjá sér, ábyrgðin liggi ekki hjá sér, valdið ekki hjá sér heldur sé það hjá öllum stjórnmálunum. Það er ríkisstjórn í landinu með meiri hluta í þinginu, hún hefur vald til þess að framkvæma það sem hún vill og stjórnarandstaðan hefur, öfugt við það sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og þessir álitsgjafar halda fram, greitt götu allra góðra mála sem frá þessari ríkisstjórn hafa komið, langflest mál hafa farið hér í gegn mótatkvæðalaust. Menn leggja til breytingartillögur og oft má laga málin aðeins með þeim hætti en að öðru leyti fara þau í gegn án nokkurra mótmæla.

Vandinn er sá að réttu lausnirnar eru ekki að koma og það er ekki verið að fylgja réttri stefnu og hvað varðar stjórnarandstöðuna þá er ekkert tillit tekið til tillagna frá henni (Forseti hringir.) heldur sett á svið eitthvert sjónarspil til að láta líta út fyrir að samráð sé í gangi. Menn verða að sýna viljann í verki, menn verða að sýna að þeir séu raunverulega tilbúnir til að breyta um stefnu því ekki er vanþörf á.