139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Mótmælin á Austurvelli hafa sýnt hversu mikil örvænting og reiði og hræðsla við framtíðina ríkir hjá almenningi. Ég skil mjög vel þessa reiði, ég er sjálf mjög reið. Ég hef horft á ættingja mína flytja til útlanda, ég hef horft á vini mína og ættingja missa vinnuna og þeir hafa ekki enn fengið aðra vinnu. Ég hef horft upp á, bæði hjá sjálfri mér og mínum nánustu, hvernig skuldir okkar hafa margfaldast og það er mjög auðvelt að tapa sér í þessari reiði, að vera svona ósáttur við hvernig staðan er á Íslandi.

Ég skil þessa reiði en ég skil líka að mörgu leyti þá erfiðu stöðu og þann mikla vanda sem stjórnvöld standa frammi fyrir vegna þess að vandinn er gífurlegur. Ég mundi gjarnan vilja segja að ég skilji hann ekki og að ráðherrarnir í ríkisstjórn séu bara einfaldlega vont fólk og vilji almenningi illt. En staðreyndin er einfaldlega sú að við stöndum uppi með gjaldþrota bankakerfi, við stöndum uppi með gjaldþrota fyrirtæki, gjaldþrota einstaklinga og nánast gjaldþrota ríkissjóð. Það er sannfæring mín að hæstv. forsætisráðherra leikur sér ekki að því að leggja til 30–40 milljarða kr. niðurskurð á velferðarkerfinu sem hún hefur eytt ævi sinni í að verja.

Enginn stjórnmálamaður vill sjá nokkra fjölskyldu missa heimili sitt á uppboði og enginn stjórnmálamaður vill sjá íslenskt atvinnulíf í þeim lamasessi sem það er í í dag. Þetta er hins vegar sá veruleiki sem við stöndum öll frammi fyrir. Sú krafa sem mér hefur fundist bergmála úti á Austurvelli, bergmála í þeim tölvupóstum sem við höfum öll fengið, er að fólki er nokk sama hvort við séum samfylkingarmanneskjur, framsóknarmenn, sjálfstæðismenn, í Hreyfingunni eða vinstri græn, það vill að við vinnum saman og reynum að leysa úr þessum gífurlega vanda, að við hugsum um þau en ekki okkur.

Það er hins vegar ekkert skrýtið þó að fólk sé áttavillt vegna þess að við sjálf ruglum með þau úrræði sem við höfum samþykkt hér. Ég er ekki viss um að hver og einn þingmaður geti útskýrt muninn á sértækri skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun eða útskýrt vísitöluna sem notuð er til að reikna út greiðslujöfnunina. Hér mætti einnig nefna muninn á flatri leiðréttingu og almennri leiðréttingu og hver sé hugsunin þar á bak við.

Það breytir því ekki að ég er algjörlega sannfærð um að við getum leyst þetta. Einfaldar lausnir eru ekki til því að vandinn er svo stór en lausnir eru til. Það er hægt að fara í almenna skuldaleiðréttingu, það er ekki einfalt, það kostar, en við getum gert það. Það er hægt að fara í réttlátan niðurskurð í velferðarkerfinu, það er ekki einfalt, það verður sársaukafullt en það er framkvæmanlegt. Við getum líka endurreist atvinnulífið, það er svo sannarlega ekki einfalt en við getum gert það og það er framkvæmanlegt ef við tökum höndum saman. Við getum reynt að skipta byrðunum á eins sanngjarnan máta og mögulegt er.

Það var í fyrsta skipti svo ég muni að atkvæðin voru 63:0 þegar við greiddum atkvæði með ályktun þingmannanefndarinnar. Þar vorum við hvött til að sýna heiðarleika, hugrekki og festu í öllum okkar störfum. Það eru skilaboðin sem ég vil koma á framfæri fyrir hönd okkar framsóknarmanna, (Forseti hringir.) að við viljum einmitt sýna hugrekki, heiðarleika og festu og taka höndum saman, vinna saman að því að leysa þessi vandamál. Við viljum samvinnu um almennar aðgerðir í þágu heimilanna og endurreisn atvinnulífsins.