139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

meðferð einkamála.

10. mál
[15:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

Mig langar að leggja aðeins orð í belg vegna þess að okkur hefur verið umhugað á hinu háa Alþingi að kalla eftir nýju Íslandi, kalla eftir breyttum vinnubrögðum og kalla eftir gagnsæi í vinnubrögðum valdastofnana. Þetta frumvarp er þess eðlis. Rík krafa er uppi í samfélaginu um gagnsæi almennt í störfum hins opinbera, í störfum þingmanna, ríkisstjórna og ráðherra, og störfum innan stjórnsýslunnar sem eiga að vera borgurum landsins aðgengileg í einu og öllu. Þetta frumvarp er þáttur í því gagnsæi sem flestir kalla eftir, gagnsæi í breyttum vinnubrögðum hæstaréttardómara, í þeim rétti þjóðarinnar sem er æðstur, Hæstarétti. Þeim úrskurði sem þaðan kemur er ekki hægt að ýta frá sér, hann er einn og allsráðandi í hverju og einu dómsmáli sem þaðan kemur.

Með þessum breytingum er verið að efla gagnsæi í dómstörfum Hæstaréttar. Verið er að gera hinum ólöglærðu auðveldara fyrir að rýna í dóma Hæstaréttar, skoða þá og jafnframt að geta gert sér grein fyrir afstöðu einstakra hæstaréttardómara til einstakra mála sem þar eru tekin fyrir.

Frú forseti. Eins og hv. flutningsmaður og framsögumaður frumvarpsins sagði í framsöguræðu sinni er hér ekki um að ræða pólitískt mál. Þetta er tæknilegt, þetta er einfalt, þetta er til að auka gagnsæi, þetta kallar á og er krafa um breytt vinnubrögð í Hæstarétti sem og annars staðar. Við munum án efa á næstu mánuðum og árum sjá fleiri mál fara frá sérstökum saksóknara inn í dómskerfið og þaðan til Hæstaréttar. Rík ástæða er til þess nú í ljósi þess sem telja má að fram undan sé hjá dómstólum landsins að aukið gagnsæi verði í vinnubrögðum innan Hæstaréttar sem og annars staðar til að auðvelda borgurum landsins að fylgjast með og geta verið sáttari við þá dóma sem felldir eru og í það minnsta að hinn almenni borgari skilji hvað liggur að baki ákvörðunum hvers og eins dómara sem kveður upp dóma í Hæstarétti sem og annars staðar.

Frú forseti. Það er ein sérstaða við þetta frumvarp og henni ber að fagna því það eru ekki mörg frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi sem kosta ríkissjóð ekki neitt. Þetta frumvarp mun ekki kosta ríkissjóð krónu en það mun auka gagnsæi í dómum Hæstaréttar, það mun gera kröfu á dómara í Hæstarétti um að það sjáist betur hver er afstaða þeirra til einstakra mála og það sem er kannski mest um vert, frú forseti, það mun auka aðgengi okkar, hins almenna borgara, að því að lesa og skilja þær niðurstöður sem frá Hæstarétti koma og hvað býr að baki ákvörðunum einstakra dómara.