139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

25. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka benda á að í þingsályktunartillögunni sjálfri eru ýmsar ábendingar sem komu frá umsagnaraðilum þegar tillagan var lögð fram hér á síðasta þingi. Meðal annars bendir ríkisskattstjóri á að hann telji að ríkið sjálft geti raunar hagnast á því að ráðgjöf sé veitt fyrr vegna þess að þá eru minni líkur á því að skattgreiðslur fyrirtækja tapist vegna þrotameðferðar.

Í Byggðastofnun er náttúrlega mikil þekking á þessu, hún hefur verið í þessu hlutverki í mörg ár og ef búin yrði til formleg stofnun, hvort sem hún væri staðsett í Nýsköpunarmiðstöð eða Byggðastofnun eða væri sjálfstæð stofnun, værum við að taka þá þekkingu sem við erum þegar með innan kerfisins og koma henni upp á yfirborðið og í raun líka að sýna að við teljum þetta skipta máli. Ekki bara nýsköpun í sjálfu sér heldur líka það að við hjálpum fyrirtækjunum frá upphafi til enda.

Síðan er eitt sem ég kom ekki sérstaklega inn á í ræðu minni og það er að ég held að eftirlitsnefndin hafi að vissu leyti líka verið að benda á að þetta gagnsæi í samskiptum kröfuhafa og skuldara væri svo mikilvægt. Með því að hafa svona stofu sem millilið þannig að allt sé uppi á borðinu held ég að við séum líka að draga úr þeirri tortryggni sem er í samfélaginu og ég held að það skipti alveg rosalega miklu máli. Þá sjá kröfuhafar sér sjálfir hag í þessu vegna þess að þeir þurfa síður að óttast undanskot eigna — maður hefur jafnvel heyrt að hlutir hafi verið skemmdir og annað — og líka að þeir viti að þarna er óháður aðili sem ætlar sér ekki að mismuna kröfuhöfum, heldur halda ballansnum.