139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

úrræði fyrir skuldara.

[14:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn hans. Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að úrræðin sem voru sett, 50 úrræði, hafa ekki nýst sem skyldi og á því eru ýmsar skýringar eins og hv. þingmaður þekkir. Við fengum t.d. í gær upplýsingar um það að þegar farið var að skoða þá sem eru að fara í uppboð kom í ljós að fjöldi þeirra, 43%, hefur ekki nýtt sér frest vegna nauðungarsölu og um 48% hafa ekki nýtt sér frest vegna greiðsluerfiðleika. Það er alveg ljóst að þau úrræði sem sett hafa verið fram hafa ekki verið nýtt, kannski af því að fólk hefur ekki leitað eftir þeim eða vegna þess að við höfum ekki kynnt þau nægjanlega. En verið er að vinna úr þessum málum með bráðaaðgerðum ýmiss konar sem ég vona að líti dagsins ljós á næstu dögum. Þrjú mál munu vonandi koma fram í þinginu í þessari viku og síðan eitt af öðru. Varðandi umboðsmann skuldara lagði félagsmálaráðherra fram frumvarp í morgun sem setur fólk í skjól um leið og það setur fram umsókn sína hjá umboðsmanni skuldara en ekki eftir að umsóknin hefur verið samþykkt, sem mun breyta mörgu. Það er því ekki hægt að ganga að fólki og krefja það um greiðslur meðan það er í þeirri skoðun.

Við höfum líka sett fram úrræði varðandi framlengingu á uppboðsfrestinum og verið er að vinna úr ýmsum málum sem stjórnarandstaðan eða hluti af henni hefur komið að með okkur.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns er alveg ljóst að ef fara á í einhvers konar niðurfærsluleið, ekki endilega þá sem hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til heldur hafa ýmsar fleiri útfærslur komið upp á borðið sem verið er að vinna með, verður að nást um það samfélagsleg sátt. Það sem ég meina með því er að allir þeir aðilar sem að því máli koma, sem eru bankar, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og fleiri aðilar, þurfa að ná sátt um það vegna þess að nauðsynlegt er (Forseti hringir.) að fara í samninga ef fara á einhvers konar niðurfærsluleið.